Innlent

Börðust við sinubruna i fimm klukkustundir: „Menn snýta svörtu í einhvern tíma eftir þetta“

Birgir Olgeirsson skrifar
Bruninn var í mólendi sunnan við jörðina Dal í Eyja- og Miklaholtshreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi í dag.
Bruninn var í mólendi sunnan við jörðina Dal í Eyja- og Miklaholtshreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi í dag. Loftmyndir ehf.
Um það bil þrjátíu slökkviliðsmenn börðust í fimm klukkustundir við sinubruna í mólendi sunnan við jörðina Dal í Eyja- og Miklaholtshreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi í dag.

Guðmundur Kristinsson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs Stykkishólms og nágrennis, segir slökkviliðsmenn frá Stykkishólmi, Borgarnesi og Grundarfirði hafa tekið þátt í slökkvistarfi og í raun hafi allt tiltækt lið á svæðinu verið kallað út.

Eldsins varð vart um klukkan þrjú í dag og fóru slökkviliðsmenn af vettvangi um klukkan átta í kvöld, en þá hafði verið tryggt að ekki hlytist frekari hætta af. Hann segir mannvirki við Vegamót, þar sem leiðin milli Stykkishólms og Snæfellsnes skiptist, og við gróðrarstöðina á Lágafelli hafa verið í hættu um stund en slökkviliðsmenn hafi komið í veg fyrir að eldurinn næði þangað.

Eldurinn brann á nokkurra hektara svæði að sögn Guðmundar en erfitt sé að segja til með nákvæmum hætti að svo stöddu hversu stórt svæði hann náði yfir.

Hann segir aðstæður hafa verið erfiðar þar sem eldurinn hafi breiðst hratt yfir svæðið vegna mikils vinds og gert slökkviliðsmönnum mikinn óleik.

„Menn snýta svörtu í einhvern tíma eftir þetta,“ segir Guðmundur spurður hvort slökkviliðsmenn séu ekki dasaðir eftir svo strembið slökkvistarf en segir þetta hafa sloppið til.

Eldsupptök voru alveg við veginn yfir í Stykkishólm en Guðmundur segir ómögulegt að svo stöddu að segja hver þau í raun voru, þó menn hafi ýmsar grunsemdir þegar þau eru svo nálægt veginum.

Hann hvetur vegfarendur til að fara öllu með gát þegar þurrt er í veðri, þá sérstaklega að kasta ekki glóandi sígarettustubbum úr bílunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×