Skoðun

Tónlistarborgin Reykjavík

Melkorka Ólafsdóttir skrifar
Á síðasta ári var settur saman starfshópur um tónlistarborgina Reykjavík. Hlutverk hópsins er að móta tillögur um undirbúning og fyrirkomulag. Slíkan stimpil hafa ýmsar vestrænar borgir, t.d. Toronto og Seattle, og hefur eflaust ýmis jákvæð áhrif, ekki síst á ímynd og markaðssetningu. Í ljósi þess hversu glæsilegir sendiherrar Íslands tónlistarmenn ýmissa greina eru og tónlistarlíf Íslendinga blómlegt virðist slíkur stimpill eiga vel við.

En að ýmsu er að huga. Fyrir tæpum sex árum reis tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa. Eins og almenningur veit var byggingin umdeild en húsið og starfsemi þess hefur þegar fullsannað gildi sitt. Þó er rekstrarumhverfi Hörpu ótækt og kristallast í dómsmáli vegna sligandi fasteignagjalda sem Harpa hefur þurft að reka gegn eigendum sínum, ríki og borg. Nýverið vann Harpa, með Halldór Guðmundsson forstjóra í brúnni, málið fyrir Hæstarétti og fasteignamat þjóðskrár var dæmt ógilt. Ekki gafst mikill tími til að fagna því stofnaður var nýr flokkur í fasteignamati, fyrir tónlistar-og ráðstefnuhús sérstaklega, og nærri jafn há gjöld lögð á Hörpu og þau sem málið var upphaflega höfðað út af. Framundan er sambærileg hringavitleysa frammi fyrir dómsvöldum.

Fasteignagjöld Hörpu hafa legið eins og hlemmur á rekstri og starfsemi hússins og takmarkað aðgengi ýmissa tegunda tónlistar vegna þess hversu dýr leigan á sölum Hörpu hefur þurft að vera. Samtímis hafa framlög til tónlistarsjóða minnkað. Tónlistarhópar og hátíðir standa frammi fyrir því að megnið af fjármunum sem þeim tekst að tína til fer í kostnað við tónleikahaldið og fáir geta greitt sér mannsæmandi laun, sjái þeir sér á annað borð fært að halda tónleika í tónlistarhúsi landsmanna.

Undirrituð fagnar innilega fyrirætlunum Reykjavíkurborgar um tónlistarborg. En slíkar hugmyndir verða lítið annað en sýndarmennska nema þeirri þróun sem verið hefur í umhverfi tónlistar síðustu ár sé snarlega snúið við. Það þarf að stemma stigu við niðurskurðarherferðinni gagnvart tónlistarskólum og tónlistarsjóðum. Og það þarf að leysa þann óskiljanlega hnút sem deilan um fasteignagjöld Hörpu hefur verið. Öðruvísi getur Reykjavík ekki orðið stolt tónlistarborg.




Skoðun

Sjá meira


×