Fótbolti

Barcelona með öruggan sigur á Chapecoense

Elías Orri Njarðarson skrifar
Lionel Messi í leiknum í kvöld
Lionel Messi í leiknum í kvöld visir/getty
Barcelona og Chapecoense AF mættust í kvöld í vináttuleik á Nou Camp.

Alan Ruschel sneri aftur í lið Chapecoense í kvöld eftir að hafa lifað af skelfilegt flugslys sem liðið varð fyrir í nóvember í fyrra og spilaði 36 mínútur í kvöld.

Barcelona byrjaði með sterkt byrjunarlið og þeir voru ekki lengi að láta af sér kveða en strax eftir sex mínútna leik kom Gerard Deulofeu þeim yfir 1-0.

Sergio Busquets bætti svo við öðru marki á 11. mínútu leiksins og staðan orðin mjög erfið fyrir brasilíska liðið. Töframaðurinn Lionel Messi var svo á ferðinni á 38. mínútu þegar að hann skoraði þriðja mark Barcelona í leiknum.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleiknum og fór Barcelona með öruggt forskot í seinni hálfleikinn. Gestirnir gerðu nokkrar breytingar í hálfleiknum og fengu nánast allir leikmenn liðsins að spreyta sig gegn spænska stórliðinu.

Luis Suarez skoraði svo fjórða mark Barcelona á 55. mínútu og Denis Suarez bætti svo við því fimmta á 74. mínútu. Fleiri voru mörkin ekki í þessum vináttuleik og 5-0 sigur Barcelona raunin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×