Erlent

MoMA mótmælir tilskipun Trumps með listaverkasýningu

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Hér má sjá gesti og gangandi virða fyrir sér listaverk Charles Hossein Zenderoudi.
Hér má sjá gesti og gangandi virða fyrir sér listaverk Charles Hossein Zenderoudi. Vísir/AFP
Nútímalistasafnið MoMA í New York hefur brugðist við umdeildri tilskipun Trumps er varðar komu fólks frá sjö löndum í Mið-Austurlöndum og Afríku til Bandaríkjanna, með því að sýna listaverk eftir listamenn frá þeim sjö löndum sem tilskipun Trump tekur til. Huffington Post greinir frá.

Um er að ræða sjö listaverk eftir listamennina Ibrahim el-Salahi frá Súdan, Parviz Tanavoli frá Íran, Tala Madani frá Íran, Zaha Hadid frá Írak, Charles Hossein Zenderoudi frá Íran, Shirana Shahbazi frá Íran og Marcos Grigorian frá Rússlandi og Persíu.

Christophe Cherix, safnvörður hjá MoMa, segir þetta vera skýr viðbrögð við því sem sé að gerast í valdatíð Trumps og að safnið sé að sýna samstöðu í verki.

,,Síðan að safnið var stofnað hefur það ávallt lagt upp með að vera einskonar öruggt skjól fyrir listamenn hvaðan æva að. Margir innflytjendur hafa komið til New York og unnið að list sinni hér og söfnin lögðu þeim lið. Ferðafrelsi er mikilvægt fyrir listamenn, fræðimenn og sagnfræðinga ,“ segir Cherix.

Hann leggur áherslu á að listaverkin séu öll í eigu safnsins og að listamennirnir séu mismunandi líkt og þeir séu margir. Þannig sé um að ræða listamenn sem leggi stund á listmálun, höggmyndalist, arkitektúr og ljósmyndun. Líklegt þykir að safnið muni hengja upp fleiri verk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×