Erlent

Angela Merkel tekur ummælum Theresu May um sterka Evrópu fagnandi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Theresa May og Angela Merkel.
Theresa May og Angela Merkel. Vísir/EPA
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tekur ummælum Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um Evrópusambandið fagnandi. BBC greinir frá.

May og Merkel eru báðar staddar á Möltu, þar sem leiðtogar ESB-ríkja sem einnig eru aðilar að varnarbandalaginu NATO funda um þessar mundir.

Á fundinum sagði May að Bretar vilji halda áfram traustu samstarfi við Evrópusambandið og hét hún því að Bretar myndu áfram styðja sterkt Evrópusamband. Hún sagði að Bretar styðji sterka Evrópu. 

Þá hét hún því að Bretar myndu aðstoða Evrópusambandið í að finna lausn á þeim flóttamannavanda sem uppi er í Evrópu, með auknum fjárstuðningi Breta og aðstoð við að finna viðeigandi lagaúrræði fyrir þá tugi þúsunda flóttamanna í Grikklandi, Egyptalandi og á Balkansskaganum.

Þær May og Merkel eyddu dágóðri stund í að ræða saman á meðan fundinum stóð og sagði kanslarinn við fjölmiðla að hún hefði verið ánægð með ummæli May um Evrópusambandið.

„Ég er ánægð að heyra að Theresa May vilji sjá sterkari Evrópu, það er á ábyrgð aðildarríkjanna hve góð Evrópa verður og hvernig vandamál hennar verða leyst, en Þýskaland vill vera hluti af þeim lausnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×