Erlent

ESB krefur Kínverja rannsóknar á ásökunum um pyndingar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Evrópusambandið gagnrýnir Kínverja harðlega. Á myndinni er Xi Jinping, forseti Kína.
Evrópusambandið gagnrýnir Kínverja harðlega. Á myndinni er Xi Jinping, forseti Kína. Vísir/AFP
Evrópusambandið krefst þess að ríkisstjórn Kína rannsaki ásakanir þriggja mannréttindalögfræðinga um pyndingar og auk þess er þess krafist að Kínverjar leysi úr haldi pólítíska fanga. Meðferð mannréttindamála af hálfu stjórnvalda undir forustu Xi Jinping, forseta Kína, hefur verið harðlega gagnrýnd. Guardian greinir frá.

Lögfræðingarnir þrír sem um ræðir, voru handteknir í júlí árið 2015, í aðgerðum stjórnvalda þar í landi sem beindust sérstaklega gegn einstaklingum sem hafa beitt sér í þágu mannréttinda. Rúmlega 250 manns voru handteknir í aðgerðunum en mörgum var haldið af lögreglu í átján mánuði, án dóms og laga.

Xie Yang, er einn þeirra lögfræðinga sem hafa verið í haldi kínversku ríkisstjórnarinnar og lýsir slæmri meðferð lögreglumanna. Hann segist hafa verið barinn en honum var jafnframt neitað um mat og drykk, auk þess sem hann fékk engan svefn. Þá hótuðu lögreglumennirnir honum ítrekað.

„Ef þessar fregnir af pyndingum verða staðfestar, þá á að sækja þessa einstaklinga til saka,“ segir meðal annars í tilkynningu Evrópusambandsins um málið. Mikilvægt að þessar ásakanir verði rannsakaðar.

„Ef Kína vill sýna umheiminum að hér sé um að ræða ábyrgðarfullan aðila í alþjóðasamfélaginu og til þess að hljóta virðingu sem alþjóðaafl, er grundvallaratriði að Kína virði alþjóðlegar skuldbindingar sínar í mannréttindamálum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×