Lífið

Leita að þátttakendum fyrir Hannað fyrir framtíðina

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sindri Sindrason mun halda utan um þáttastjórn.
Sindri Sindrason mun halda utan um þáttastjórn.
Í sumar hefja göngu sína nýir hönnunarþættir á Stöð 2 undir stjórn Sindra Sindrasonar. Þættirnir bera heitið Hannað fyrir framtíðina og er ætlað að beina sjónum okkar að lausnum fyrir ungt fólk í húsnæðisleit. Sagafilm sér um framleiðslu þáttanna.

„Við leitum að pörum, vinum, hjónum eða sambýlisfólki sem bý yfir þeim hæfileikum að geta hannað herbergi, baðherbergi, eldhús o.s.frv. Þátttakendur þurfa einnig að geta smíðað og hannað hluti eins og hillur, skápa og borð svo eitthvað sé nefnt,“ segir Sindri sem er mjög spenntur fyrir verkefninu enda áhugi hans á heimilum varla farið framhjá neinum.

„Það verður fróðlegt að sjá hvernig fólk mun vinna að því að gera rýmin að fallegum heimilum en tíminn er takmarkaður sem og fjármagnið,“ segir Sindri sem er þó bjartsýnn á að útkoman verði stórkostleg.  

Valin verða tvo pör til þátttöku sem fá afhent sitthvort rýmið, sem er á Ásbrú í Reykjanesbæ, og fá þar frjálsar hendur með hönnun og standsetningu íbúðanna. „Eitt herbergi er tekið fyrir í hverjum þætti og í lok hvers þáttar sjáum við afraksturinn,“ segir Sindri en aðaláherslan verður lögð á hönnunarhlutann og raunhæfar lausnir þar sem útkoman verða íbúðir fyrir ungt fólk og framtíðina.

Áhugasamir geta sent inn umsókn með upplýsingum um sig á netfangið, honnun@sagafilm.is 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×