Skoðun

Heilsuspilling heilbrigðisnema

Elísabet Brynjarsdóttir skrifar
Pældu aðeins í því að nemendur á heilbrigðisvísindasviði við Háskóla Íslands stunda nám við aðstæður sem spilla heilsu þeirra. Þetta er fólkið sem mun hlúa að þinni heilsu í framtíðinni. Þetta er fólkið sem mun taka á móti börnunum þínum, annast foreldra þína og hlúa að þér þegar þú getur það ekki sjálfur.

Er ekki eitthvað óeðlilegt við að heilsu þessa fólks sé ógnað við að læra að hlúa að þér og þínum?

Eirberg er meðal annars aðsetur nemenda í hjúkrunarfræði en þar hefur komið upp myglusveppur, sem uppgötvaðist fyrst á síðasta ári. Í kjölfar þess að fulltrúar félags hjúkrunarfræðinema, ásamt starfsfólki hjúkrunarfræðideildar, börðust fyrir því að sveppnum yrði útrýmt var ráðist í framkvæmdir í sumar. Nú hefur hins vegar komið upp sú staða að hlé var gert á framkvæmdunum en í ljós kom að myglan er enn til staðar. Í hléinu fékk hún tækifæri til að dreifa sér á ný og mælist nú aftur í þeim hluta byggingarinnar sem hafði verið hreinsuð.

Myglusveppurinn er birtingarmynd undirfjármögnunar háskólanna. Deildir hafa ekki efni á að ráðast í aðgerðir sem skaða bæði nám nemenda og heilsu þeirra. Skortur á fjármagni bitnar sérstaklega á smærri deildum háskólans, sem, ólíkt hjúkrunarfræðinemum, eiga sér oftast nær engan samastað. Nemendur í næringar- og matvælafræði þurfa til að mynda að sækja tíma í Matís í Grafarholti og ferðast á háskólasvæðið í næstu kennslustund. Það bitnar á þeim nemendum sem eiga ekki bíl, auk þess sem það er kostnaðarsamt og óumhverfisvænt. Deildin á sér engan samastað, sem kemur niður á tækifærum til samvinnu milli deilda, þverfaglegra rannsókna, nýsköpunar og teymisvinnu. Byggingaflakk er ekki hentugri kostur fyrir háskólann þar sem dreifð starfsemi veldur hærri rekstrarkostnaði, sem er allt að milljarði aukalega á hverju ári.

Forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar ættu ekki einungis að vera að nýr spítali rísi árið 2023, eins og stendur í stjórnarsáttmála hennar, heldur þarf einnig að bæta verulega í fjármögnun Háskóla Íslands.

Hlutverk Stúdentaráðs er að veita ríkisstjórninni aðhald og tryggja að hún standi við gefin loforð. Ég krefst þess að ríkisstjórnin og þingið standi við gefin loforð um byggingu nýs spítala og fjármögnun háskólakerfisins.

Svona til tilbreytingar.




Skoðun

Sjá meira


×