Erlent

Danir fyrstir til að skipa sendiherra gagnvart tæknirisum heimsins

atli ísleifsson skrifar
Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur.
Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur. Vísir/AFP
Danmörk verður fyrsta ríki heims til að skipa sérstakan sendiherra gagnvart tæknirisum heimsins. Sendiherranum er ætlað að hlúa að samskiptum danska ríkisins og fyrirtækja líkt og Google, Apple, Microsoft og Facebook.

Í frétt Politiken segir að ástæða hinnar nýju stöðu sé að áhrif fyrirtækjanna séu orðin meiri – bæði þegar kemur að efnahag og með hvaða hætti þau hafa áhrif á daglegt líf borgaranna – en mörg þeirra landa þar sem Danmörk starfrækir sérstök, hefðbundin sendiráð.

„Segja má að þessi fyrirtæki séu eins konar nýjar þjóðir og við þurfum að vera í tengslum við þau,“ segir Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur.

Politiken segir frá því að bæði Apple og Google séu næstum nægilega stór til að ganga í G20-hópinn ef þau væru þjóðríki. „Við verðum að sjálfsögðu áfram að hugsa um tengsl okkar við önnur ríki. En við verðum einnig að vera með náin tengsl við þau fyrirtæki sem hafa mest áhrif á okkur,“ segir Samuelsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×