Erlent

Skipstjóri Costa Concordia gaf sig fram

Samúel Karl Ólason skrifar
32 létu lífið í slysinu.
32 létu lífið í slysinu. Vísir/AFP
Francesco Schettino, skipstjóri skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, gaf sig fram við yfirvöld í dag eftir að hæstiréttur Ítalíu staðfesti 16 ára fangelsisdóm yfir honum. Hann var við stjórn skipsins þegar það sigldi á sker og hvolfdi í Miðjarðarhafinu árið 2012, en 32 létu lífið.

Hann var upprunalega dæmdur fyrir manndráp, að valda sjóslysi og að yfirgefa skipið áður en allir aðrir voru komnir frá borði, árið 2015 og hefur áfrýjunarferli staðið yfir síðan þá.

Francesco Schettino.Vísir/AFP
Schettino var gefið gælunafnið „Captain Coward“, eða „heigull skipstjóri“ af fjölmiðlum í Ítalíu eftir slysið og eftir að landhelgisgæslan birti hljóðupptöku þar sem hann var í björgunarbát og þvertók fyrir að fara aftur um borð í skipið.

Samkvæmt frétt BBC voru rúmlega fjögur þúsund manns um borð þegar skipið hvolfdi og ríkti mikil ringulreið þegar skipið var yfirgefið.

Saksóknarar héldu því fram að Schettino hefði siglt of nálægt eyjunni til að monta sig fyrir dansara sem var með honum í brúnni þegar skipið strandaði og hvolfdi. Schettino sjálfur kenndi þó samskiptaörðugleikum við stýrimann sinn um slysið, en sá var frá Indónesíu.

Fimm aðrir samstarfsmenn Schettino voru einnig dæmdir í fangelsi vegna slyssins.


Tengdar fréttir

Skipstjóri Costa Concordia brast í grát

Francesco Schettino sagði að skipafélagið ætti sök á slysinu sem 32 létust í og sagði fjölmiðla hafa verið ósanngjarna gagnvart sér.

Skipstjóri Concordia snæddi með ballerínu stuttu fyrir strand

Lögregluyfirvöld á Ítalíu leita nú ungrar konu í tengslum við strand skemmtiferðaskipsins Costa Concordia. Konan er 25 ára og er þekkt ballettdansmær. Talið er að hún og skipstjóri Concordia hafi snætt saman stuttu áður en skipið strandaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×