Innlent

Akranesbær styður meiri byggðafestu í kvótakerfið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bæjarstjóri Akraness segir að ekkert verði gefið eftir til að tryggja að þar verði áfram útgerð og segir bæjaryfirvöld styðja hugmyndir um meiri byggðafestu í kvótakerfið. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Það var þungt hljóð í starfsmönnum frystihúss HB Granda á Akranesi í gær eftir að tilkynnt var að þeim yrði öllum sagt upp og vinnslunni lokað. Væntingar um störf hjá HB Granda í Reykjavík slá ekki á áhyggjur, eins og heyra mátti í viðtölum, sem sjá má hér að ofan.

Sesselja Andrésdóttir, starfsmaður í fiskvinnslu HB Granda.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Þetta er áfall. Það er verið að kippa fótunum undan mörgum af okkur. Við vitum ekkert hvernig framtíðin er. Hvar fáum við vinnu? Fáum við vinnu?“ spurði Sesselja Andrésdóttir, starfsmaður HB Granda. 

„Þegar svona stór vinnustaður fer, þá eru það ekki bara við. Það eru allir þeir sem tengjast þessu; búðir, þjónustufyrirtæki, - bara allt. Þetta er alveg rosastór biti þegar svona fer,“ sagði Skúlína Hlíf Guðmundsdóttir trúnaðarmaður, sem segir að Akranes sé að verða svefnbær.

Skúlína Hlíf Guðmundsdóttir, trúnaðarmaður í frystihúsinu.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, segir að staðið verði við þau áform að stækka höfnina, en bærinn sendi í dag frá sér yfirlýsingu vegna ákvörðunar HB Granda. En verður hún til þess að bæjaryfirvöld krefjist þess að kvótakerfið verði endurskoðað?

Bæjarstjórinn vísar til þess að nefnd sé að hefja störf til að fara yfir þau mál.

„Við munum auðvitað fylgja því vel eftir að hér geti orðið útgerð á Akranesi. Það er alveg klárt. Við munum ekki gefa neitt eftir hvað það varðar.

Það hefur komið fram að það eigi að tryggja það að það sé meiri byggðafesta í kvótakerfinu. Við munum styðja við allar slíkar hugmyndir,“ segir Sævar. 

Einnig var fjallað um málið í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×