Innlent

Sigmundur einungis mætt einu sinni

Snærós Sindradóttir skrifar
Þátttaka þingmanna í atkvæðagreiðslum segir ekkert um framlag þeirra á fundum hjá nefndum Alþingis.
Þátttaka þingmanna í atkvæðagreiðslum segir ekkert um framlag þeirra á fundum hjá nefndum Alþingis. vísir/eyþór
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur mætt einu sinni til atkvæðagreiðslu á Alþingi frá þingsetningu, eða þann 22. desember 2016. Þá greiddi hann atkvæði í 28 skipti við afgreiðslu á svokölluðum bandormi. Alls hefur hann verið fjarverandi í 87,2 prósent tilfella frá því að þing kom saman síðastliðið haust.

Sex þingfundadagar eru eftir fram að þingfrestun og sumarfríum í lok mánaðarins.

Þátttaka alþingismanna í atkvæðagreiðslum er skrásett á heimasíðu Alþingis. Þingmenn mæta mjög misjafnlega vel til atkvæðagreiðslu en alla jafna eru ráðherrar mest fjarverandi við atkvæðagreiðslur. Þó eru á því undantekningar en sá þingmaður sem minnst hefur mætt, að Sigmundi undanskildum, er Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. Ásta hefur verið fjarverandi við 88 atkvæðagreiðslur á tímabilinu eða í 38,8 prósent tilfella. Þar með hefur hún verið meira fjarverandi en allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar.

Þó munar aðeins einni atkvæðagreiðslu á Ástu og Kristjáni Þór Júlíussyni menntamálaráðherra, sem hefur verið fjarverandi 87 sinnum.

Það eru þingmenn stjórnarandstöðunnar sem mæta verst, ef frá er talinn menntamálaráðherra. Á eftir Sigmundi og Ástu Guðrúnu kemur Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem hefur verið fjarverandi í þriðjungi atkvæðagreiðslna. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins hefur verið fjarverandi í 31 prósenti tilfella.

Til eru þó þeir þingmenn sem varla láta sig vanta. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur aldrei verið fjarverandi frá því að þing hófst. Hún hefur einu sinni tilkynnt fjarvist. Flokksbræðurnir Birgir Ármannsson og Óli Björn Kárason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa hvor um sig verið fjarverandi frá einni atkvæðagreiðslu.

Þá hafa Samfylkingarmennirnir Logi Einarsson og Guðjón S. Brjánsson einnig aðeins verið fjarverandi einu sinni hvor um sig.

Fréttablaðið óskaði eftir viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson um téðar fjarvistir með smáskilaboðum. Þeim svaraði Sigmundur skömmu síðar með sama hætti: „Sæl og blessuð. Nei takk. Ég er löngu hættur að svara svona rugli frá sérstökum áhugamönnum um mig. Ég er í vinnu sem þingmaður á hverjum einasta degi. Á þessu ári eru páskadagur og annar í páskum einu undantekningarnar. Það heyrir til undantekninga að ég mæti ekki í þinghúsið eða á skrifstofuna þegar eru þingfundardagar nema ég sé á fundum annars staðar á landinu. Hins vegar er ég iðulega að hitta fólk víðar en í þinghúsinu. Enn hafa ekki verið greidd atkvæði um tvísýnt mál á árinu. Mér sýnist fljótt á litið að það hafi verið þrír atkvæðagreiðsludagar á þinginu á þessu ári (fyrir utan tilfallandi atkvæðagreiðslur). Þar af var um helmingur allra atkvæðagreiðslna ársins sl. fimmtudag. Þann dag þurfti ég að fara á fundi í kjördæminu.“ 

Samkvæmt heimasíðu Alþingis hafa atkvæði verið greidd á níu mismunandi dögum frá áramótum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×