Erlent

Nýr forseti segist reiðubúinn að heimsækja grannana í norðri

Atli Ísleifsson skrifar
Moon Jae-in sór embættiseiðinn í þinghúsinu í höfuðborginni Seúl í morgun.
Moon Jae-in sór embættiseiðinn í þinghúsinu í höfuðborginni Seúl í morgun. Vísir/AFP
Moon Jae-in sór í morgun embættiseið sem nýr forseti Suður-Kóreu, degi eftir að hann vann afgerandi sigur í forsetakosningum. Í fyrstu ræðu sinni sem forseti sagðist hann ætla að breðast við efnahagsástandinu í landinu þar sem blikur eru á lofti, auk þess að hann sagðist reiðubúinn að heimsækja nágrannana í Norður-Kóreu „við réttar aðstæður“.

Moon sór embættiseiðinn í þinghúsinu í höfuðborginni Seúl, en þessi nýi forseti er fyrrum mannréttindalögfræðingur, sonur norður-kóreskra flóttamanna og er þekktur fyrir að vera frjálslyndur í skoðunum.

Mikil spenna hefur verið á Kóreuskaga síðustu vikurnar vegna eldflaugatilrauna og kjarnorkuáætlunar Norður-Kóreumanna. Hafa Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn unnið að uppsetningu eldflaugavarnakerfis í Suður-Kóreu.

Moon hefur heitið því að sameina þjóðina að nýju eftir hið mikla spillingarmál sem skók þjóðina og leiddi til að forsetinn fyrrverandi, Park Geun-hye, hrökklaðist úr embætti. Sagðist hann munu gera allt sem í hans valdi stæði til að koma á friði á Kóreuskaga.

„Ef þörf krefur mun ég tafarlaust fljúga til Washington. Ég mun líka fara til Beijing og Tókýó og jafnvel Pyongyang [höfuðborg Norður-Kóreu] við réttar aðstæður,“ sagði Moon í innsetningarræðu sinni.

Moon hefur skipað Lee Nak-yon, ríkisstjóra í héraðinu South Jeolla, í embætti forsætisráðherra landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×