Innlent

Of fatlaður fyrir rafmagnshjólastól

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Rafmagnshjólastól þarf maðurinn að greiða úr eigin vasa.
Rafmagnshjólastól þarf maðurinn að greiða úr eigin vasa. NORDICPHOTOS/AFP
Sjúkratryggingar Íslands þurfa ekki að taka þátt í kostnaði við kaup á rafmagnshjólastól fyrir fjölfatlaðan karlmann. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í umsókn um styrk til kaupa á rafmagnshjólastólnum segir að maðurinn sé með CP og flogaveiki. Hann sé í hjólastól alla daga. Þá er hann með ýmsa áráttukennda hegðun, meðal annars gleypi hann loft og þurfi oft að ropa en til að losa loftið þurfi að setja hann í upprétta stöðu. Nýi stóllinn, sem sótt var um styrk fyrir, bjóði upp á að reisa hann í upprétta stöðu og auðveldi því bæði að losa loft sem og bleyjuskipti.

Umræddur stóll kostar um fjórar milljónir króna. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn mannsins þar sem hann félli ekki undir skilyrði reglugerðar um styrki vegna hjálpartækja. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að maðurinn væri svo fatlaður að hann gæti ekki uppfyllt þau skilyrði sem gerð eru fyrir kostnaðarþátttöku.

Synjun stofnunarinnar var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í niðurstöðu nefndarinnar segir að ljóst sé að nýi stóllinn myndi auðvelda umönnun mannsins til muna, en hún lendir að hluta á föður hans á sjötugsaldri. Meginmarkmið styrksins sé hins vegar að koma til móts við þá sem eiga erfitt með að brúka handdrifinn hjólastól. Þar sem maðurinn væri of fatlaður til að stýra stólnum sjálfur og að hann myndi eingöngu auðvelda umönnun var synjun Sjúkratrygginga staðfest. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×