Erlent

Þóttust vera konur á samfélagsmiðlum til að njósna um ísraelska herinn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ísraelski herinn segist hafa flett ofan af ráðabruggi Hamas liða.
Ísraelski herinn segist hafa flett ofan af ráðabruggi Hamas liða. Vísir/AP
Ísraelski herinn segist hafa flett ofan af ráðabruggi Hamas samtakanna sem reyndu að njósna um ísraelska hermenn með því að þykjast vera konur á samfélagsmiðlum og þannig brjótast inn í síma þeirra. BBC greinir frá.

Að sögn ísraelska hersins reyndu samtökin að brjótast inn í síma ísraelsku hermannanna með því að þykjast vera konur og vingast við hermennina á samfélagsmiðlum. Þeir notuðu til þess síður alvöru kvenna á samfélagsmiðlum. 

Þeim tókst með þessari aðferð að sannfæra tugi hermanna um að setja upp forrit í snjallsímum sínum sem gaf Hamas liðum kleyft að fá aðgang að myndavéla- og hljóðnemabúnaði símanna. Þóttust Hamas-liðarnir vilja eiga myndsamtal með hermönnunum í þessu umrædda forriti.

Að sögn yfirmanna í ísraelska hernum tókst þeim þó ekki að komast yfir nein mikilvæg hernaðarleyndarmál þar sem flestir hermannanna voru lágt settir og höfðu því ekki aðgang að mikilvægum upplýsingum.

Hamas samtökin, sem stjórna Gaza svæði Palestínumanna, hafa ekki tjáð sig um ummæli yfirmanna ísraelska hersins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×