Lífið

Ráku transfyrirsætu sem sagði allt hvítt fólk rasista

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Munroe Bergdorf hefur verið rekin fyrir ummæli lituð kynþáttafordómum.
Munroe Bergdorf hefur verið rekin fyrir ummæli lituð kynþáttafordómum. Skjáskot
Snyrtivörurisinn L‘Oreal hefur rift samstarfssamningi við fyrstu transfyrirsætu á vegum fyrirtækisins. Hún er sögð hafa birt ummæli í athugasemdakerfum á Facebook sem lituð voru „kynþáttafordómum.“ BBC greinir frá.

Umrædd fyrirsæta, Munroe Bergdorf, sagði „allt hvítt fólk“ vera rasista í athugasemdum sem hún birti á Facebook. L‘Oreal segir ummælin brjóta í bága við stefnu og gildi fyrirtækisins og að vegna þeirra muni samstarfi þess við Bergdorf ljúka.

Fyrirsætan hefur síðan svarað fyrir sig en hún sagði að með þessu niðurrifi á persónu sinni væri aðeins verið að staðfesta allt sem hún hefði sagt.

Munroe Bergdorf, sem er fyrirsæta og transkona, var sögð „andlit nútímafjölbreytni“ þegar hún var fengin til starfa hjá L‘Oreal. Stuttu síðar er hún sögð hafa birt „rasísk ummæli“ á Facebook.

„Í hreinskilni sagt þá hef ég ekki orku til að tala lengur um kynþáttabundið ofbeldi af hálfu hvíts fólks. Já, ALLS hvíts fólks,“ er Bergdorf sögð hafa skrifað.

„Öll tilvist ykkar er að drukkna í rasisma,“ á hún að hafa bætt við en hún segir athugasemdirnar hafa verið svar við átökunum í Charlottesville, þar sem til átaka kom á milli hvítra þjóðernissinna og gagnmótmælenda. Athugasemdunum hefur nú verið eytt.

Twitter-notendur hafa margir lýst yfir stuðningi sínum við Bergdorf með myllumerkinu #IStandWithMunroe.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×