Innlent

Matvælafyrirtæki kært vegna skjalafals

Matvælafyrirtæki reyndi að falsa undirskrift vegna vatnssýna.
Matvælafyrirtæki reyndi að falsa undirskrift vegna vatnssýna.
Lögreglumál Matvælastofnun hefur kært matvælafyrirtæki til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en fyrirtækið er staðsett þar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST. Fyrirtækið falsaði niðurstöður greininga á vatnssýni og reyndi að blekkja stofnunina. Eftirlitsmaður frá MAST mætti í fyrirtækið í byrjun júlí og vildi fá að sjá nýjustu niðurstöður greininga á vatnssýni. Forsvarsmaður fyrirtækisins sagðist ekki hafa þær en sendi stofnuninni síðar sama dag skjal dagsett 12. júní með niðurstöðum frá viðurkenndri rannsóknarstofu. Þar kom fram að vatnssýni sem fyrirtækið hefði afhent til greiningar uppfyllti kröfur reglugerðar um neysluvatn. Skjalið var á bréfsefni rannsóknarstofunnar og undirritað af starfsmanni hennar. Starfsmann MAST grunaði að maðkur væri í mysunni og efaðist um gildi skjalsins. Rannsóknarstofan hefur staðfest við MAST að hafa aldrei búið til skjalið og forsvarsmaður fyrirtækisins hefur einnig viðurkennt svikin. Sökum alvarleika brotsins kærði MAST fyrirtækið til lögreglu en skjalafals er brot á almennum hegningarlögum. Matvælafyrirtæki eins og hér á við taka sjálf vatnssýni árlega og senda á rannsóknarstofu til greiningar. Niðurstöður greininga eru síðan varðveittar og skoðaðar af eftirlitsmönnum, en fyrirtæki sem þessi eru heimsótt tvisvar til þrisvar á ári. Málavextir eru þeir að í janúar 2017 fékk fyrirtækið afhentar niðurstöður greininga rannsóknarstofu á vatnssýni sem það hafði sjálft tekið til skoðunar á vatnsgæðum. Niðurstöðurnar sýndu að vatnssýnið stæðist ekki kröfur samkvæmt reglugerð með tilliti til örverutalningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×