Erlent

Stúlka sem rænt var af spítala fyrir 18 árum fannst á lífi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mobley þegar hún var nýfædd og konan sem handtekin var í tengslum við barnsránið.
Mobley þegar hún var nýfædd og konan sem handtekin var í tengslum við barnsránið. mynd/lögreglan í jacksonville
Stúlka sem rænt var af spítala í Flórída í Bandaríkjunum í júlí árið 1998 fannst á lífi í Suður-Karólínu eftir ábendingu frá almenningi.

 

Stúlkan, Kamiyah Mobley, hélt að Gloria Williams væri móðir sín en lögreglan handtók Williams þar sem talið er að hún tengist barnsráninu. Mobley hét öðru nafni en fjölskylda hennar hefur verið látin vita af því að hún sé fundin.



Að því er fram kemur í frétt BBC
 er Mobley við góða heilsu og virðist vera ósköp venjuleg 18 ára stúlka. Hún var aðeins átta tíma gömul þegar kona, sem þóttist vera starfsmaður á spítalanum, tók hana.

Konan sagði móður Mobley að stúlkan væri með hita og þyrfti því á læknisskoðun að halda. Hún hvarf hins vegar með stúlkuna og sást ekki aftur á spítalanum. Málið vakti mikla athygli í Bandaríkjunum á sínum tíma þar sem móðirin reyndi að finna nýfædda dóttur sína.

Lögreglustjórinn í Jacksonville sem fer með málið segir það undir Mobley komið hvernig og hvenær hún mun hafa samband við fjölskyldu sína.

„Hún er núna fullorðin. Hana grunaði jafnvel að eitthvað hefði gerst en ímyndið ykkur að reyna að skilja þetta allt. Henni var rænt sem ungabarni og hún þarf tíma til að meðtaka þetta allt. Við viljum virða einkalíf hennar og óskum eftir því að þið gerið slíkt hið sama,“ sagði lögreglustjórinn við fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×