Erlent

Isabel óttast það þegar sænski læknirinn losnar úr fangelsi: „Ég er virkilega hrædd“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Isabel Eriksson var í viðtali hjá Skavlan í kvöld.
Isabel Eriksson var í viðtali hjá Skavlan í kvöld. SVT/Sænska lögreglan
Isabel Eriksson, sem rænt var af sænskum lækni í september 2015 og haldið fanginni í um viku, óttast það mjög þegar manninum verður sleppt úr fangelsi eftir nokkur ár. Læknirinn var dæmdur í tíu ára fangelsi í héraðsdómi en dómnum var áfrýjað og var hann þá mildaður í átta ár. Með góðri hegðun þarf hann þó mögulega ekki að sitja af sér allan dóminn og gæti því losnað úr fangelsi fyrr.

„Ég er virkilega hrædd og það er í raun skelfilegt að hann eigi möguleika á að losna fyrr,“ sagði Eriksson í sjónvarpsþættinu Skavlan í kvöld. Hún nýtur verndar og hefur skipt um nafn. Þá hefur hún gengið til sálfræðings til að vinna úr áfallinu sem hún varð fyrir vegna ránsins.

Hún kynntist lækninum, Martin Trenneborg, þegar hún vann sem fylgdarkona í Stokkhólmi. Hann hafði kynnt sig áður en þau hittust sem Bandaríkjamann sem byggi í London. Þau hittust svo en þá byrlaði læknirinn Eriksson ólyfjan og ók með hana á bæ sem hann átti í sveitinni á Skáni. Þar hafði hann komið upp hljóðeinangruðu herbergi og ætlaði að halda Eriksson fanginni í mörg ár.

 

Þorði ekki að stunda kynlíf með henni

„Ég vaknaði og var með nál í handleggnum sem ég reif úr. Ég reyndi svo að ráðast á hann en ég var svo lyfjuð að ég gat það varla. Hann greip svo um úlnliðinn á mér og sagði að ef ég myndi reyna eitthvað svona aftur þá myndi hann hlekkja mig við rúmið og bara gefa skorpubrauð að borða,“ sagði Eriksson í kvöld.

Í frétt Vísis fyrr í dag kom fram að maðurinn þarfnaðist mikillar nándar. Hann vildi að hann og Eriksson svæfu saman og hann þurfti stöðuga líkamlega snertingu en hann þorði þó ekki að stunda kynlíf með henni þar sem hann óttaðist að hún væri með kynsjúkdóma. Læknirinn tók því blóðprufur úr Eriksson til að kanna hvort hún væri með einhverja sjúkdóma.

„Hann langaði til að stunda óvarið kynlíf,“ sagði Eriksson í Skavlan í kvöld. Niðurstöðurnar komu hins vegar ekki áður en hún slapp frá honum og því nauðgaði hann henni aldrei.

Þá rétti hann henni eitt sinn byssu og bað hana að skjóta hann.

 

„Hann sagði að hann gæti ekki farið í fangelsi og þess vegna vildi hann að ég myndi skjóta hann. En það kom í ljós að þetta var ekki alvörubyssa heldur var hann bara að prófa mig og hvað ég gæti hugsanlega gert. Það var heppilegt að ég tók ekki í gikkinn.“

Hér má sjá þátt Skavlan en viðtalið við Eriksson byrjar um það bil á mínútu 37:30.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×