Erlent

Trump skrifar undir tilskipun sem auðveldar afskipti trúarsafnaða af stjórnmálum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump var í góðu skapi í dag.
Donald Trump var í góðu skapi í dag. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifaði í dag undir tilskipun sem mun auðvelda trúarsöfnuðum að skipta sér af málum sem falla undir svið stjórnmála. Um er að ræða tilskipun sem nær til trúarsafnaða sem ekki borga skatta.

Tilskipunin mun þannig gera trúarsöfnuðum í Bandaríkjunum sem reka hinar ýmsar kirkjur kleyft að neita starfsfólki sínu um tryggingarfé sem það getur nýtt sér til þess að kaupa sér getnaðarvarnarpillur. Getnaðarvarnir eru þyrnir í augum ýmissa trúarsafnaða þar vestanhafs.

Áður hafði trúarsöfnuðum í Bandaríkjunum verið meinað að taka ákvarðanir sem þóttu ganga inn á svið stjórnmálanna. Það var gert í kjölfar lagasetningar Lyndon B. Johnson, þáverandi þingmanns sem síðar varð forseti, árið 1954.

Sú lagasetning kvað á um að í stað þess að sleppa við greiðslu skatta var trúarsöfnuðum þess í stað meinað að taka þátt í stjórnmálum.

Þeir gátu ekki tekið þátt í stjórnmálastarfi flokkanna með beinum hætti né heldur gátu þeir stutt ákveðna frambjóðendur. Ljóst er að nú hefur orðið breyting þar á. Margir hafa gagnrýnt forsetann fyrir að ganga gegn aðskilnaði ríkis og kirkju með tilskipuninni. 

Forsetinn fagnaði eigin undirritun vel og innilega í dag en hann sagði að Bandaríkin væru land trúfrelsisins.

Ekki einungis erum við þjóð trúar, heldur erum við þjóð umburðarlyndisins. Við erum heppin að lifa í landi sem ber virðingu fyrir réttinum til trúar. Við líðum ekki lengur þá þöggun sem fólk trúar hefur mátt upplifa í þessu landi.

Við sama tækifærið tilkynnti Trump hvaða lönd hann mun koma til með að heimsækja í fyrstu utanlandsferð sinni sem forseti. Hann ætlar sér að heimsækja Sádí-Arabíu, Ísrael og Ítalíu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×