Erlent

Viðbúnaður í Ósló: Lögregla lagði hald á hlut sem líktist sprengju

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Byggingar hafa verið rýmdar í miðborg Óslóar
Byggingar hafa verið rýmdar í miðborg Óslóar vísir/skjáskot
Norska lögreglan hefur lagt hald á hlut sem hefur svipmót sprengju í miðborg Óslóar. Einn hefur verið handtekinn vegna gruns um aðild að málinu. Aftenposten greinir frá

Lögregluyfirvöld í Noregi hafa jafnframt staðfest fregnirnar á Twitter.

Hluturinn fannst skammt austan af Grønland-torgi í miðborg Óslóar. Nærliggjandi byggingar hafa verið rýmdar og Grønland-lestarstöðinni lokað.

Norskir fjölmiðlar hafa greint frá því að hvellur hafi heyrst frá vettvangi í kringum 00:30 að staðartíma en hafa engar nánari upplýsingar um hvað það kann að hafa verið.

Uppfært kl. 23:20

Lögreglan hefur staðfest að hvellurinn sem heyrðist í kjölfar aðgerða sprengjusérfræðinga á svæðinu kunni að gefa til kynna að hluturinn sem fannst hafi innihaldið sprengiefni. 

Stórt svæði hefur verið girt af frá austurhluta Grønland-torgs við Tøyenbekken og til Brugata að Vaterlandsparken meðtöldum. Á svæðinu er talsvert um skemmtistaði og hafa þeir verið rýmdir. 

Grønland-torg í Ósló.vísir/googlemaps


Lögregla hefur staðfest að hinn grunsamlegi hlutur sem lagt var hald á sé kassi, um 30 sinnum 30 sentimetrar að stærð. 

Lögreglan handtók mann í tengslum við hlutinn um hálf eitt leytið að staðartíma og hefur hann réttarstöðu sakbornings. 

Enn er mikill viðbúnaður á svæðinu og fjöldi lögregluþjóna þar við störf. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×