Innlent

Hefur verið talsverð umferð út úr borginni frá þriðjudegi

Atli Ísleifsson skrifar
Guðbrandur Sigurðsson er aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Guðbrandur Sigurðsson er aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Stefán
 „Við vitum að umferðin verður mikil en ekki eins og á árum áður þar sem allir fóru af stað á föstudegi og allir komu heim á mánudegi,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um verslunarmannahelgina sem er að ganga í garð.

„Þetta er farið að dreifast miklu meira þannig að við finnum miklu minna fyrir verslunarmannahelgi hér á höfuðborgarsvæðinu en á árum áður. Þetta eru allt orðnar stórar umferðarhelgar ef veður er gott í júlí. Það er orðinn lítill munur á milli stærstu helgunum í júlí og verslunarmannahelgum.“

Guðbrandur segir daginn hafa verið nokkuð rólegan það sem af er. Hins vegar hafi verið talsverð umferð á Vesturlands- og Suðurlandsvegi alveg frá þriðjudegi. „Það er eins og margir séu í fríi eða hafi tekið sér frí til að komast fyrr af stað.“

Enginn að stressa sig

Lögregla vill brýna fyrir ökumönnum að virða hámarkshraðann á vegum úti. „Svo verður fólk að fá góða hvíld eða svefn eftir að hafa neytt áfengis. Þeir verða að vera allsgáðir við aksturinn. Einnig verða þeir að varast hættilegan framúrakstur, halda ró sinni, vera róleg. Það er í sumarfríi og það á enginn að vera stressa sig neitt. Ef mikil umferð er þá myndast raðir. Það er bara þannig. Ef menn eru á hægfara ökutækjum og halda ekki hámarkshraða þá þurfa þeir að gæta að því að víkja þegar það er hægt, í útskotum eða annars staðar og hleypa umferð fram úr sér.“

Guðbrandur brýnir einnig fyrir ökumönnum að vera með athyglina við aksturinn og ekki vera að fikta í símanum án handfrjáls búnaðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×