Fótbolti

Ástralía vann 6-1 sigur á Brasilíu í fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samantha Kerr skorar og tryggir sér markaskóngstitilinn á mótinu.
Samantha Kerr skorar og tryggir sér markaskóngstitilinn á mótinu. Vísir/Getty
Það er ekki bara verið að keppa á Evrópumóti kvenna í fótbolta þessa dagana því í nótt kláraðist einnig fyrsta Tournament of Nations í Bandaríkjunum en það er mót milli bestu knattspyrnulandsliða kvenna utan Evrópu.

Ástralska kvennalandsliðið tryggði sér sigur á mótinu með eftirminnilegum 6-1 sigri á Brasilíu í lokaleiknum en í mótinu tóku einnig þátt Bandaríkin og Japan.  Allar þessar fjórar þjóðir eru meðal sjö hæstu á styrkleikalista FIFA.

Lisa de Vanna og Caitlin Foord skoruðu báðar tvennu fyrir ástralska liðið í þessum stórsigri á Brasilíu en hin mörkin skoruðu þær Katrina Gorry og Samantha Kerr.

Þetta var stærsta tap brasilíska landsliðsins á þessari öld eða síðan að liðið tapaði 6-0 fyrir Bandaríkjunum árið 1999.

Það dugði ekki brasilíska landsliðinu að komast yfir með marki Camilu í upphafi leiks því þær áströlsku jöfnuðu fljótlega og keyrðu síðan yfir Brassana.

Ástralía fékk fullt hús stiga á mótinu en liðið vann 1-0 sigur á Bandaríkjunum í fyrsta leik, þá 4-2 sigur á Japan og loks 6-1 sigur á Brasilíu.

Bandaríska landsliðið tryggði sér annað sætið með 3-0 sigri á Japan í hinum leik dagsins.

Ástralinn Samantha Kerr skoraði eitt mark í nótt og var þar með markahæst á mótinu en hún skoraði þrennu í sigri Ástrala á Japan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×