Erlent

Segir að sjálfstætt Skotland gæti þurft að gerast aðili að ESB í áföngum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins.
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins. Vísir/EPA
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, segir að sjálfstætt Skotland muni hugsanlega ekki ganga í Evrópusambandið fari svo að Skotar kjósi sjálfstæði í nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu. Skotland gæti þess í stað gerst aðili að EFTA, fríverslunarsamtökum Evrópu. Guardian greinir frá.

Sturgeon hefur haldið því fram að Skotar eigi rétt á annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði sitt eftir Brexit þjóðaratkvæðagreiðsluna, þar sem að 62 prósent Skota hafi kosið gegn því að yfirgefa Evrópusambandið, þvert á niðurstöður.

Sturgeon segir að margt eigi eftir að koma í ljós varðandi Brexit samningana og hvernig nákvæmlega útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verði háttað. Þeir samningar muni koma til með að hafa mikil áhrif á afstöðu Skota til sambandsins og því gæti EFTA aðild, ásamt aðild að ESB í áföngum orðið nauðsynleg.

Ég vil að Skotland sé í ESB. Það er hins vegar mikil óvissa uppi um Brexit viðræðurnar. Því gætum við þurft að tryggja aðild sjálfstæðs Skotlands að ESB í áföngum.

Sturgeon hefur ítrekað sagt að markmið hennar yrði að tryggja Skotlandi aðgang að sameiginlegu efnahagssvæði Evrópu og með EFTA aðild gæti Skotland nálgast slíkt, án þess að vera aðilar að Evrópusambandinu.

Talið er að Sturgeon sé með ummælum sínum að reyna að afla fylgis meðal Skota við sjálfstæði en rúmlega þriðjungur kjósenda Skoska þjóðarflokksins er andsnúinn Evrópusambandsaðild.

Jackson Carlaw, leiðtogi skoskra Íhaldsmanna, segir að Sturgeon sé með þessum ummælum sínum einungis að spila pólitíska leiki í von um að afla fylgis þeirra sem studdu útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu við sjálfstætt Skotland. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×