Erlent

Fornleifafræðingar fundu 17 múmíur í grafreit í Egyptalandi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá grafreitnum.
Frá grafreitnum. Vísir/Getty
Egypskir fornleifafræðingar nálægt borginni Minya í Egyptalandi hafa uppgötvað grafreit með 17 múmíum en þetta er fyrsti fundur sinnar tegundar á svæðinu. Borgin er rúma 220 kílómetra sunnan við Kaíró, höfuðborg landsins. Guardian greinir frá. 

Á svæðinu má finna margskonar grafreiti fyrir þúsundir dýra og því var fundurinn einkar merkilegur þar sem ekki hafa fundist grafnir menn áður.

Að sögn Khaled al-Anani, fornleifaminjaráðherra Egyptalands, er fundurinn sögulegur þar sem múmíurnar eru í einkar góðu ásigkomulagi.

„Þetta er fyrsti slíki grafreiturinn sem finnst á þessu svæði. Múmíurnar voru vel varðveittar og því var líklegast um að ræða hátt setta ríkisaðila eða presta í Egyptalandi til forna.“

Grafreiturinn er rúmlega 8 metra fyrir neðan yfirborð jarðar og er talið að mennirnir hafi verið grafnir á tímum forn Egypta. Vinna á svæðinu er á frumstigi og vonast fornleifafræðingarnir til þess að marga mikilvæga muni megi finna á svæðinu.

Ferðamannaiðnaðurinn í Egyptalandi er að miklu leyti rekinn á slíkum uppgötvunum en hann hefur átt undir högg að sækja að undanförnu vegna stjórnmálaástandsins í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×