Erlent

Norska öryggislögreglan tekur við rannsókn atviksins í Ósló

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglumaður athafnar sig ásamt sprengjuleitarvélmenni við Grænlandstorg í Ósló í gærkvöldi.
Lögreglumaður athafnar sig ásamt sprengjuleitarvélmenni við Grænlandstorg í Ósló í gærkvöldi. Vísir/AFP
Norska öryggislögreglan hefur tekið við rannsókn á atviki í miðborg Óslóar í gærkvöldi. Aftenposten greinir frá.

Maður var stöðvaður við Grænlandstorg um 22:30 að staðartíma en hann hafði í fórum sínum kassa, sem talinn er hafa innihaldið hlut sem líktist sprengju.

Um 02:30 að staðartíma aðfararnótt sunnudags staðfestu lögregluyfirvöld að norska öryggislögreglan, PST, hafi tekið yfir rannsóknina. Lögreglan hefur auk þess beðist undan því að veita upplýsingar um þann grunaða.

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að við höfum tekið málið að okkur en ég get ekki tjáð mig um þær,“ sagði Martin Bernsen, upplýsingafulltrúi norsku öryggislögreglunnar.

Hann bætti við að rannsókn málsins væri enn á frumstigum en nú tækju við hefðbundin verkferli.

Í samtali við Aftenposten á sunnudagsmorgun sagði Bernsen að maðurinn, sem handtekinn hefur verið í tengslum við málið, sé kominn með lögmann.

Per-Willy Amundsen, dómsmálaráðherra Noregs, mun funda um atvikið. Þá hefur norska öryggislögreglan boðað til blaðamannafundar í dag klukkan 15:00 að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×