Skoðun

Það vantar kraftinn

Lísbet Sigurðardóttir skrifar
Það hafa verið gífurlega mörg tækifæri fyrir unga Sjálfstæðismenn í Reykjavík til að láta rödd sína heyrast að undanförnu og til að berjast fyrir því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík standi vörðinn fyrir íbúana - tali fyrir leiðum að lægra útsvari, að fólki sé treyst fyrir eigin peningum og að borgin einbeiti sér að grunnþjónustu fyrir íbúana en láti gæluverkefni lönd og leið.

Ég vil grípa þessi tækifæri og býð mig fram til formanns Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík, á aðalfundi félagsins í dag. Ég vil hefja upp raust Heimdallar og vera virkt aðhald fyrir kjörna fulltrúa flokksins í borginni.

Ungt fólk í Reykjavík vill til dæmis standa á eigin fótum í eigin húsnæði, það vill flytja að heiman án þess að yfirgefa sveitarfélagið sitt. Það verður að skapa aðstæður í Reykjavík þar sem þetta er mögulegt og þar viljum við veita borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna lið okkar en þau hafa haldið uppi virkri og málefnalegri gagnrýni á stefnu meirihlutans í þessum málum. Það þarf að skapa umhverfi þar sem ungir jafnt sem aldnir geti búið undir eigin þaki.

Borgarmálin eru spennandi vettvangur fyrir ungt fólk til að láta til sín taka. Borgin er nærumhverfi hvers og eins sem þýðir að auðvelt er að taka „litlar“ ákvarðanir á vettvangi borgarstjórnar sem hafa mikil áhrif á líf borgaranna. Ég vil, ásamt þeim ellefu manna hópi sem með mér stendur í framboði til stjórnar Heimdallar, fá fleiri unga að borðinu og fá þannig fleiri leiðir að lausn þeirra vandamála sem blasa við.

Það vantar kraft í Heimdall. Ég hlakka til, fái ég til þess umboð, að leiða Heimdall af krafti næsta árið og til sigurs í Reykjavík í næstu borgarstjórnarkosningum.

Við vonumst til þess að félagsmenn á aldrinum 15-35 ára veiti okkur það umboð í dag í Valhöll frá kl. 16-19. Við stöndum fyrir frelsi með ábyrgð, betri borg og galopið starf ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×