Erlent

Assad segist reiðubúinn að semja um allt

Atli Ísleifsson skrifar
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti. Vísir/AFP
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti kveðst reiðubúinn að semja um „allt“ við gang þeirra friðarviðræðna sem fyrirhugaðar eru í Kasakstan. Frá þessu greinir sýrlenski ríkisfjölmiðillinn Sana.

Aðspurður hvort einnig komi til tals að hann víki sjálfur úr embætti segir Assad svo vera, en bendir á að staða hans sé tengd stjórnarskrá landsins. „Þannig að ef þeir vilja ræða slíkt verða þeir að ræða stjórnarskrána.“

Í frétt Independent um málið kemur fram að Assad segi að allar ákvarðanir um stjórnarskrárbreytingar verði að vera teknar í þjóðaratkvæðagreiðslum og að það sé sýrlenska þjóðin sem velji sér forseta.

Í viðtalinu segir Assad einnig að ekki sé ljóst hver muni verða fulltrúi stjórnarandstöðunnar í friðarviðræðunum, eða hvenær þær hefjist, en búist er við að það verði í lok janúar.

Stjórnvöld í Rússlandi, Tyrklandi og Íran hafa haft milligöngu um að koma á friðarviðræðunum og náðist samkomulag um að þær færu fram í kasöksku höfuðborginni Astana.

Forsetinn segir að uppreisnarhópar í landinu hafi nokkrum sinnum rofið vopnahlé sem samið var um í kjölfar þess að stjórnarherinn náði aftur tökum á stórborginni Aleppo eftir margra ára átök.


Tengdar fréttir

Vopnahlé í Sýrlandi hangir á bláþræði

Sýrlenskir uppreisnarmenn segja stjórnarherinn og Rússa halda áfram að varpa tunnusprengjum. Óvíst hvort friðarviðræður hefjast síðar í mánuðinum eins og að var stefnt. Bandaríkin koma ekki að þessu vopnahléi, ólíkt fyrri tilraunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×