Enski boltinn

Carvalhal: Mourinho er kóngurinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Carvalhal er þekktur fyrir að vera vel hress og fór fögrum orðum um þjálfara Manchester United og samlanda sinn.
Carvalhal er þekktur fyrir að vera vel hress og fór fögrum orðum um þjálfara Manchester United og samlanda sinn. vísir/getty
Carlos Carvalhal, stjóri Swansea, segir að landi hans, Jose Mourinho, sé kóngurinn í portúgölskum fótbolta og meistarinn í hugarleikjum.

Carvalhal og Mourinho leiða saman hesta sína á laugardag er Manchester United og Swansea mætast á Old Trafford er enska úrvalsdeildin fer aftur af stað eftir landsleikjapásu.

„Hann er kóngurinn í fótboltanum. Hann er besti þjálfarinn í sögu Porto. Hann opnaði dyrnar fyrir nýja kynslóð þjálfara að fara víðar. Hann opnaði fyrir portúgalska þjálfara,” sagði Carvalhal.

„Hann er baráttumaður og það sem ég er að meina er að hann er góður í hugarleikjum. Hann leikur þetta og setur upp leikrit og yfirleitt vinnur. Ég er allt öðruvísi, ég vill vera fyrir utan leikhúsið.”

„Þetta verður mjög erfiður leikur fyrir okkur. Ef við afrekum eitthvað verð ég mjög sáttur, ef við afrekum ekki neitt verður það mjög eðlilegt. Ef þú hefur smá möguleika verðuru að hafa 100 prósent trú. Við munum undirbúa liðið til þess að reyna að sækja eitthvað á Old Trafford.”

United hefur einungis tapað tveimur af síðustu 42 heimaleikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni en Carvalhal gantaðist með þá tölfræði.

„Það er tveir hlutir. Ég hef aldrei tapað gegn Mourinho og aldrei tapað á Old Trafford. Það er vegna þess að ég hef aldrei spilað þar né gegn honum svo ég er með góða tölfræði,” sagði Carvalhal sem uppskar mikinn hlátur í blaðamannasalnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×