Fótbolti

Hollenskar goðsagnir taka við kamerúnska landsliðinu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kluivert og Seedorf voru hluti af afar skemmtilegu liði Hollendinga í kringum aldamótin. Þeir eru hér í efri röð, Kluivert annar frá vinstri og Seedorf honum næstur.
Kluivert og Seedorf voru hluti af afar skemmtilegu liði Hollendinga í kringum aldamótin. Þeir eru hér í efri röð, Kluivert annar frá vinstri og Seedorf honum næstur.
Clarence Seedorf hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Kamerún og tekur hann landa sinn, Patrick Kluivert sem aðstoðarþjálfara með sér í verkefnið.

Seedorf átti stórglæsilegan leikmannaferil þar sem hann vann Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum með þremur félögum (Ajax, Real Madrid og tvisvar með AC Milan). Þá lék hann einnig fyrir Inter Milan, Sampdoria og Botafogo auk þess að leika 87 landsleiki fyrir Holland.

Þjálfaraferill Seedorf hefur hins vegar farið frekar rólega af stað en hann hefur staldrað stutt við sem knattspyrnustjóri hjá AC Milan, Shenzhen í Kína og nú síðast hjá Deportivo La Coruna á Spáni þar sem hann féll með liðið úr La Liga.

Svipaða sögu má segja af Kluivert sem átti frábæran leikmannaferil og var ásamt Seedorf í Ajax liðinu sem vann Meistaradeild Evrópu auk þess að spila lengi með Barcelona. Hann hefur farið víða eftir að leikmannaferlinum lauk.

Meðal starfa sem Kluivert hefur tekið að sér er landsliðsþjálfarastarf Curacao auk þess sem hann hefur starfað fyrir PSG, Ajax, Twente, NEC Nijmegen og ástralska félagið Brisbane Roar. Þá var hann aðstoðarþjálfari Louis van Gaal hjá hollenska landsliðsinu frá 2012-2014.

Kamerún komst ekki á HM í Rússlandi sem var mikið áfall en stórt ár er framundan þar sem þjóðin mun hýsa Afríkukeppnina á næsta ári en liðið vann keppnina í fyrra.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×