Fótbolti

Spennuþrungið andrúmsloft á ársþingi KSÍ: Fallið frá heildarbreytingum á lögum sambandsins

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Guðni Bergsson er formaður KSÍ.
Guðni Bergsson er formaður KSÍ. Vísir
Ársþingi Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) var rétt í þessu að ljúka á Hilton Reykjavík Nordica. Var þetta í 72. skipti sem það er haldið.

Eftir að ÍBV hafði dregið tilbaka tillögu sína um að leikmenn héldu kröfurétti ef félög skrá ekki samninga þeirra innan tilsetts tímarímma, lágu fyrir þrjár tillögur sem afgreiða þurfti á þinginu.

Fyrstu tvær tillögurnar voru báðar samþykktar. Það er að liðum í þriðju deild yrði fjölgað úr tíu í tólf og að KSÍ fari „skosku leiðina“.

Skoska leiðin eða Air Discount Scheme (ADS) var sett á fót af skoskum stjórnvöldum árið 2005. Markmið hennar er að auka aðgengi að flugþjónustu á viðráðanlegu verði fyrir félög á landsbyggðinni.

Líkt og fotbolti.net greinir frá varð andrúmsloftið á þinginu spennuþrungið þegar ræða átti lokatillögu þingsins er varðar heildarbreytingu á lögum KSÍ.

Sambandið hafði skipað fimm manna starfshóp fyrir þing sem falið var að fara yfir og endurskoða ákvæði laga KSÍ. Stærsta breytingin sem ofangreindur hópur lagði til var að kjörtímabil formanns yrði lengt úr tveimur árum í þrjú og að hann geti bara setið samfleytt sem formaður í þrjú kjörtímabil ef hann er kosinn til þess.

Íslenskur toppfótbolti (ÍTF), hagsmunasamtök félaga í tveimur efstu deildum karla, kom með breytingartillögu á framangreindri lagabreytingu og fengu góðan stuðning, nítján félög voru með í þeirri tillögu.

ÍTF lagði meðal annars til að kjörtímabil formanns yrði áfram tvö ár. Þá vilja þeir jafnframt að stærri félög fái fleiri atkvæði á ársþingum KSÍ.

Ekki náðist að finna lausn á þessu máli og var á endanum ákveðið að fallast frá lagabreytingunum að þessu sinni og tillögunum frestað til næsta ársþings. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×