Erlent

Hvetur lögreglu til þess að fótbrjóta fíkniefnasala

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Innanríkisráðherr Tyrklands sést hér fyrir miðju, ásamt Erdogan Tyrklandsforseta, til hægri.
Innanríkisráðherr Tyrklands sést hér fyrir miðju, ásamt Erdogan Tyrklandsforseta, til hægri. Vísir/AFP
Innanríkisráðherra Tyrklands hefur hvatt lögregluna til þess að fótbrjóta fíkniefnasala verði þeir varir við slíka menn í grennd við skóla. Hefur ráðherrann verið harðlega gagnrýndur fyrir ummælin. BBC greinir frá.

„Ef að fíkniefnasali er í grennd við skóla ber lögreglunni skylda til þess að fótbrjóta viðkomandi. Gerið það og ég skal taka sökina. Jafnvel þó það þýði fimm, tíu eða tuttugu ár í fangelsi, við borgum,“ sagði Suleyman Soylu, innanríkisráðherra Tyrklands á opnum fundi um öryggismál í Ankara, höfuðborg Tyrklands.

Þar greindi hann frá því að lögregla hefði lagt hald á tuttugu tonn af heróíni á síðasta ári og að aldrei hafi verið lagt hald á meira magn af fíkniefninu. Um tuttugu prósent þeirra fanga sem dúsa í fangelsum í Tyrklandi eru þar vegna fíkniefnatengdra afbrota.

Mannréttindasamtök Tyrklands hafa þegar gagnrýnt ummæli ráðherrans harðlega og segja hann vera að hvetja lögreglu til lögbrota. Þá hefur þingmaður stjórnarandstöðuflokksins CHP lögsótt Soylu vegna ummælana.

Talsmaður Erdogan Tyrklandsforseta segir þó að ummæli innanríkisráðherrans hafi átt rétt á sér og bendi aðeins til vilja hans til þess að útrýma misnotkun fíkniefna í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×