Innlent

Segja ónæði af umferð vegna hótelreksturs í Grímsbæ

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Markhópur gistiheimilis í Grímsbæ er fjölskyldufólk og fólk í viðskiptaerindum að sögn hótelstjórans.
Markhópur gistiheimilis í Grímsbæ er fjölskyldufólk og fólk í viðskiptaerindum að sögn hótelstjórans. vísir/anton brink
Stjórn Húsfélags Efstalands 20 til 24, sem er íbúðablokk næst Grímsbæ, segir íbúa hafa orðið fyrir talsverðu ónæði vegna Gríms Hótels í verslunarmiðstöðinni. Í athugsemdabréfi húsfélagsins til skipulagsyfirvalda í Reykjavík segir að umferð rúta og leigubíla hafi aukist, bílum sé lagt í einkastæði íbúa og þeir hafi áhyggjur af hraðakstri og mengun auk slits á stæðunum. „Ábendingum hefur verið komið til rekstraraðila gistiheimils, með misjöfnum viðbrögðum,“ segir í bréfinu.

Grímur Hótel er með tuttugu herbergi og var opnað í júní að sögn Dagmarar Valsdóttur hótelstjóra. Hún viðurkennir að einhverjir hnökrar hafi verið vegna umferðarmála en að gestum hótelsins sé sérstaklega beint upp fyrir Grímsbæ þar sem næg bílastæði sé að finna.

„Það er þægilegra fyrir alla og það er það fyrsta sem við gerum, einfaldlega til að vera með góða þjónustu gagnvart sjálfum kúnnanum og líka fólkinu í kring,“ segir Dagmar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×