Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2

Ritstjórn skrifar
Úrskurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá beiðni um að réttaráhrifum verði frestað eftir að Arctic Fish og Fjarðalax voru svipt starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á Tálknafirði og Patreksfirði. Framkvæmdastjóri hjá Arctic Fish segir að með þessu sé málið orðið pólitískt og stjórnvalda að ákveða hvort stunda eigi fiskeldi á Íslandi. Við fjöllum um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.

Við segjum einnig frá því að nítján félög innan Starfsgreinasambandsins munu leggja fram kröfur sínar fyrir komandi kjaraviðræður um miðja næstu viku. Félögin öll hafa ákveðið að fara sameinuð fram í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins en það hefur ekki áður gerst í sögu sambandsins.

Rætt er við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, sem segir vandséð að Íslendingar hafi náð samfélagslegri sátt um orsakir bankahrunsins haustið 2008. Hann segir að líklega séu þessir atburðir of nærri Íslendingum í tíma.

Þá skoðum við málverk af Bjarna Benediktssyni að klæða sig í nábrók, sem þjóðsagan segir að geti aflað mönnum fjár. Verkið átti ekki upp á pallborðið hjá húsráðendum í Hannesarholti þar sem myndlistarmaðurinn Þrándur Þóroddsson opnar sýningu á morgun. Myndin er hins vegar vinsæl og hefur nú þegar verið seld.

Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×