Enski boltinn

Hazard hetjan á Anfield með stórbrotnu marki

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hazard fagnar markinu frábæra.
Hazard fagnar markinu frábæra. vísir/getty
Chelsea er komið áfram í 16-liða úrslit Carabao-bikarsins eftir 2-1 endurkomusigur sigur á Liverpool á Anfield í kvöld.

Ágætis kraftur var í liði Chelsea fyrsta stundarfjórðunginn þar sem liðið náði nokkrum sinnum að opna miðju Liverpool upp á gátt án þess að skapa sér afgerandi færi.

Staðan var markalaus í hálfleik en fyrsta markið kom á 59. mínútu leiksins er Daniel Sturrdige fylgdi á eftir markvörslu Willy Caballero með laglegu bakfallsspyrnu. Liverpool komið í 1-0.

Chelsea náði lítið að skapa sér af opnum færum en þeir jöfnuðu hins vegar metin ellefu mínútum fyrir leikslok er Emerson pikkaði boltanum í netið eftir aukaspyrnu.

Sigurmarkið var svo af dýrari gerðinni. Eftir að hafa farið framhjá hverjum Liverpool-manninum á fætur öðrum þrumaði Eden Hazard boltanum í netið fjórum mínútum fyrir leikslok og tryggði Chelsea 2-1 sigur.

Chelsea er því komið áfram í 16-liða úrslitin en þessi sömu lið mætast aftur á sunnudaginn. Þá er það enska úrvalsdeildin.

Arsenal marði 3-1 sigur á Brentford með tveimur mörkum frá Danny Welbeck og einu frá Alexandre Lacazette. West Ham gerði sér lítið fyrir og rústaði Macclesfield, 8-0, á Ólympíuleikvanginum í London.

Nottingham Forest, úr B-deildinni, er komið í 16-liða úrlsitin eftir 3-2 sigur á Stoke sem féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×