Erlent

Mannskæð skotárás í háskóla í Tyrklandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjúkrabíll við háskólann í Eskisehir sem er um 250 kílómetra vestur af Ankara.
Sjúkrabíll við háskólann í Eskisehir sem er um 250 kílómetra vestur af Ankara. Vísir/AFP
Starfsmaður háskóla í norðvesturhluta Tyrklands skaut fjóra kennara til bana í dag. Tyrkneskir fjölmiðlar segja að maðurinn hafi verið handtekinn. Svo virðist sem að orsök æðis mannsins hafi verið persónulegar deilur.

AP-fréttastofan hefur eftir Hasan Gonen, prófessor við Osmangazi-háskólann í borginni Eskisehir, að byssumaðurinn hafi verið aðstoðarmaður við rannsóknir. Hann hafi skotið varadeildarforseta, ritari og tvo kennara við kennslufræðideild háskólans til bana.

Gonen telur að árásarmaðurinn hafi aðallega ætlað að ráðast á deildarforseta sem var ekki á staðnum. Morðinginn hafi verið til rannsóknar innan skólans eftir að hann sakaði fjölda starfsfólks um að vera fylgjendur Fethullah Gulen, klerksins sem tyrknesk stjórnvöld kenna um misheppnaða tilraun til valdaráns árið 2016. Gulen er í Bandaríkjunum.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að maðurinn hafi fyrst skotið manneskju á skrifstofu deildarforsetans. Síðan hafi hann farið á efri hæð byggingarinnar og skotið þrjá aðra. Svo virðist sem að árásarmaðurinn, sem var við doktorsnám við skólann, hafi gefist upp sjálfviljugur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×