Erlent

Fimm hundruð í sjálfheldu í fjallshlíðum Rinjani

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þyrlur eru á sveimi yfir Rinjani-fjalli og björgunarsveitir vinna að því að koma fjallgöngufólkinu til byggða.
Þyrlur eru á sveimi yfir Rinjani-fjalli og björgunarsveitir vinna að því að koma fjallgöngufólkinu til byggða. Vísir/AP
Rúmlega 500 göngugarpar eru fastir í hlíðum fjallsins Rinjani á Lombok-eyju í Indónesíu því mannskæður jarðskjálfti, sem reið yfir eyjuna árla sunnudagsmorguns, gat af sér skriður sem lokuðu gönguleiðum.

Lombok-eyja er ákaflega vinsæll áfangastaður ferðamanna og fólk hvaðanæva að úr heiminum sækist í fallegar gönguleiðir upp fjallið Rinjani.

Tæplega átta hundruð göngugarpar voru staddir í hlíðum fjallsins þegar jarðskjálftinn varð og um þrjú hundruð manns náðu, með miklum erfiðismunum, að komast niður af fjallinu að því fram kemur á BBC.

Þyrlur eru á sveimi yfir Rinjani-fjalli og björgunarsveitir vinna að því að koma göngufólkinu til byggða.

Jarðskjálftinn sem mældist 6,4 að stærð átti upptök sín um 50 kílómetra norðaustur af höfuðborginni Mataram. Rúmlega 60 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið en stærstur þeirra mældist 5,7.

Að minnsta kosti 16 létu lífið í skjálftunum og rúmlega 160 slösuðust.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×