Fótbolti

Ótrúlegt klúður Zlatan og félaga í lokaumferðinni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Zlatan var svekkur í leikslok.
Zlatan var svekkur í leikslok. vísir/getty
Los Angeles Galaxy hafnaði í 13.sæti deildarkeppninnar í MLS deildinni í Bandaríkjunum og verður því ekki með í úrslitakeppninni þar sem tólf efstu lið deildarinnar taka þátt.

Galaxy þurfti aðeins eitt stig úr lokaumferðinni sem fram fór í gær en þar fékk liðið Houston Dynamo í heimsókn. Lið sem hafði að engu að keppa nema stoltinu. Þrátt fyrir að vera 2-0 yfir í leikhléi eftir mörk Norðmannsins Ola Kamara tapaði Galaxy leiknum 2-3 eftir að hafa fengið á sig þrjú mörk á síðasta hálftímanum.

Zlatan lauk leiktíðinni sem næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 22 mörk í þeim 27 leikjum sem hann spilaði. Markahæstur var Venesúela maðurinn Josef Martinez sem gerði 31 mark í 34 leikjum fyrir Atlanta United.

New York Red Bulls tryggði sér deildarmeistaratitilinn með sigri á Orlando City en á sama tíma steinlág Atlanta United, sem hafði pálmann í höndunum fyrir lokaumferðina, 4-1 fyrir Toronto FC.

Úrslitakeppnin hefst strax á miðvikudag en Wayne Rooney og félagar í DC United leika á fimmtudag.

Þessi lið mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

New York City FC - Philadelphia

Los Angeles FC - Real Salt Lake

FC Dallas - Portland Timbers

DC United - Columbus Crew

Fjögur efstu lið deildarinnar sitja hjá í fyrstu umferð en það eru New York Red Bulls, Atlanta United, Sporting Kansas City og Seattle Sounders.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×