Enski boltinn

Framherji frá Sádi-Arabíu æfir með United til að undirbúa sig fyrir HM

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mohammad í leik með Sádi-Arabíu gegn Belgum á þriðjudag.
Mohammad í leik með Sádi-Arabíu gegn Belgum á þriðjudag. vísir/getty
Sádi-Arabinn, Mohammad Al-Sahlawi, mun æfa með Manchester United í þrjár vikur og koma sér í form fyrir heimsmeistaramótið í Rússlandi í sumar þar sem Mohammad verður í eldlínunni.

Samningurinn er hluti af auglýsingasamning sem Manchester United gerði við íþróttafyrirtæki í Sádi Arabíu en Mohammad hefur verið að spila fyrir Al-Nassr þar í landi.

Í október skrifaði United undir þennan samning og gefur hann United aur í sparibaukinn en auk þess á United að stuðla að framþróun fótboltans í Sádi-Arabíu. Á móti þeim samning fær Mohammad því að æfa með United í þrjár vikur fyrir HM.

Mohammad þarf heldur betur að vera í stuði í sumar ætli liðið sér einhverja velgengni á HM. Hann hefur verið funheitur í þeim landsleikjum sem hann hefur spilað; skorað 28 mörk í 36 landsleikjum.

Sádi-Arabía er með Rússlandi, Úrúgvæ og Egyptalandi í riðli á HM en fyrsti leikur liðsins er gegn heimamönnum í Rússlandi 14. júní. Leikið verður í Moskvu þar sem Ísland og Argentína mætast tveimur dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×