Innlent

Stúlkan á batavegi eftir óhapp á læknabekk

Kjartan Kjartansson skrifar
Atvikið átti sér stað á Læknavaktinni í Austurveri á sunnudag.
Atvikið átti sér stað á Læknavaktinni í Austurveri á sunnudag. Vísir/Vilhelm
Faðir tveggja ára stúlku sem klemmdist með höfuðið í rafknúnum bekk á Læknavaktinni um helgina segir hana alla að koma til eftir óhappið. Framkvæmdastjóri Læknavaktarinnar segir enga ákvörðun hafa enn verið tekna um hvenær eða hvort læknabekkir þar verði aftur gerðir virkir aftur. Lyfjastofnun er ekki sögð hafa fundið neitt athugavert við bekkina eða uppsetningu þeirra.

Höfuð stúlkunnar klemmdist í rafknúnum bekk þegar hann var með foreldrum sínum og tveimur börnum til viðbótar í skoðun á Læknavaktinni á sunnudag. Albert Símonarson, faðir stúlkunnar, sagði Vísi að hann hefði óttast um líf dóttur sinnar þegar hún var orðin rauðblá í framan sökum þrýstings og súrefnisskorts þegar armar bekkjarins byrjuðu að klemmast saman.

Læknavaktin tók bekkina úr sambandi við rafmagn eftir óhappið á meðan gengið væri úr skugga um öryggi þeirra. Mbl.is hefur eftir lögfræðingi Lyfjastofnunar að sérfræðingar hennar hafi kannað bekkina og rætt við starfsfólk Læknavaktarinnar í morgun. Bekkurinn hafi reynst rétt uppsettur og ekkert virtist að honum.

Ætlunin sé að óska eftir upplýsingum frá Læknavaktinni um þjálfun starfsfólks og hvernig kennslu á tækið sé háttað þar. Faðir stúlkunnar sagði að læknirinn sem skoðaði dóttur hans hafi ekki kunnað á bekkinn.

Ekki virkjaðir aftur að svo stöddu

Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Læknavaktarinnar, segist ekki hafa fengið neina niðurstöðu frá Lyfjastofnun um bekkinn. Ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um að virkja bekkina aftur og að það verði ekki gert að svo stöddu.

„Við viljum vera örugg í okkar aðgerðum að taka þá aftur í notkun. Ef niðurstaðan er sú að það er ekkert að tækinu þá verðum við að vera sátt,“ segir hann við Vísi.

Skoðað hafi verið hvernig kennslu starfsmanna á bekkina er háttað. Gunnar Örn segir að tryggja verði að allir kunni á þá.

Slapp við heilablæðingu og beinbrot

Stúlkan ber sig vel eftir atvikum og er öll að koma til, að sögn Alberts föður hennar. Hún tognaði illa í hnakka og er bólgin og marin eftir bekkinn.

„Að öðru leyti slapp hún bara ótrúlega vel frá þessu og er bara í rólegheitum að jafna sig,“ segir Albert.

Óttast hafði verið að blætt hefði getað inn á heila stúlkunnar en Albert segir að hún hafi sloppið við það. Þá hafi engin bein brotnað eða brákast.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×