Innlent

Helmingur þjóðarinnar styður ríkisstjórnina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sjást hér ræða málin í þingsal í vor.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sjást hér ræða málin í þingsal í vor. Vísir/Vilhelm
Alls 50,1 prósent aðspurðra í könnun MMR um fylgi stjórnmálaflokka segjast styðja ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er nánast sami stuðningur og mældist í seinustu könnun MMR þegar 49,8 prósent sögðust styðja ríkisstjórnina.

 

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 21,6 prósent stuðning landsmanna og er stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi samkvæmt könnuninni sem var framkvæmd dagana 12. til 18. júní. Fylgi flokksins dregst saman um rúm tvö prósentustig frá síðustu mælingu sem lauk 22. maí.

Samfylkingin mælist með 15,1 prósent fylgi og er aukning um hálft prósentustig frá síðustu mælingu. Píratar mælast nú með 14,3 prósent fylgi og eru á pari við það sem þeir mældust með í síðustu könnun.

Fylgi Vinstri grænna mældist nú 12,7% og mældist 12,0% í síðustu könnun.

Fylgi Miðflokksins mældist nú 10,6% og mældist 9,8% í síðustu könnun.

Fylgi Framsóknarflokks mældist nú 9,5% og mældist 10,1% í síðustu könnun.

Fylgi Flokks fólksins mældist nú 8,2% og mældist 5,6% í síðustu könnun.

Fylgi Viðreisnar mældist nú 5,8% og mældist 7,1% í síðustu könnun.

Fylgi annarra flokka mældist 2,2% samanlagt.

Svarfjöldi var 925 einstaklingar, 18 ára og eldri. Voru þátttakendur í könnuninni valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×