Innlent

Hefðu fengið sæti í borgarráði

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Borgarfulltrúar Sósíal­ista, Miðflokks og Flokks fólksins hefðu getað myndað með sér blokk og fengið hver um sig aðalmann í tveimur ráðum borgarinnar. Hefðu fengið sameiginlegan fulltrúa í borgarráð en glatað áheyrnarfulltrúum í staðinn.
Borgarfulltrúar Sósíal­ista, Miðflokks og Flokks fólksins hefðu getað myndað með sér blokk og fengið hver um sig aðalmann í tveimur ráðum borgarinnar. Hefðu fengið sameiginlegan fulltrúa í borgarráð en glatað áheyrnarfulltrúum í staðinn. Vísir
Sósíalistar, Miðflokkur og Flokkur fólksins hefðu fengið fleiri fulltrúa í aðalráðum borgarinnar, sem kosið var í fyrir helgi, ef þeir hefðu myndað þriggja manna blokk sín á milli án samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.

Þessir þrír flokkar fengu samtals sex aðalmenn í helstu ráðum borgarinnar í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn en hefðu, eftir reiknireglum d’Hondt, náð sameiginlega einum aðalmanni og einum varamanni í öllum sjö ráðunum hefðu þeir myndað þriggja manna blokk saman án Sjálfstæðisflokksins.

Auk borgarráðs eru sex aðalráð borgarinnar skipuð sjö mönnum. Flokkarnir þrír hefðu þannig getað skipt með sér sex ráðum og hver þeirra fengið aðalmann og varamann í tveimur ráðum. Sameiginlegum manni í borgarráði hefðu flokkarnir þurft að skipta á milli sín yfir kjörtímabilið. Í þessu valdamesta ráði borgarinnar og í skipulags- og samgönguráði sem líka fer með fullnaðarafgreiðsluvald í tilteknum málum á Sjálfstæðisflokkurinn alla aðal- og varamenn minnihlutans. Litlu flokkarnir þrír hafa hins vegar áheyrnarfulltrúa í þessum ráðum, sem þeir hefðu ekki fengið ef þeir hefðu skipt með sér einum aðalfulltrúa.

Í samtölum við borgarfulltrúana nefndu þeir allir mikilvægi þess að vera alltaf með áheyrn í borgarráði, sem þeir hefðu glatað hefðu þeir átt sameiginlegt aðalsæti í ráðinu, jafnvel þótt þeir hefðu skipt setu í ráðinu á milli sín yfir kjörtímabilið. 



Efri myndin sýnir skiptingu fulltrúa í ráðum borgarinnar eins og hún var ákveðin á fundi borgarstjórnar í síðustu viku, þegar allur minnihlutinn myndaði kosningabandalag. Neðri myndin sýnir áhrif þess ef Sósíalistar, Miðflokkur og Flokkur fólksins hefðu myndað þriggja manna blokk án Sjálfstæðisflokks.
Þótt þetta hafi haft töluverð áhrif á ákvörðun um samstarf við Sjálfstæðisflokkinn er ljóst að þeir hefðu vel getað myndað þriggja manna blokk en hafnað aðalmanni í borgarráð og haldið áheyrnarfulltrúunum.

Þá er ekki loku fyrir það skotið að borgarfulltrúar hafi viljað sæti í sömu ráðum og að því leyti fengið meira út úr samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Í velferðarráði sitja til dæmis bæði Kolbrún Baldursdóttir fyrir Flokk fólksins og Sanna Magda­lena Mörtudóttir fyrir Sósíalista.

Hefðu flokkarnir þrír myndað blokk hefði bara eitt sæti í hverju ráði fengist en með samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn fengu flokkarnir tvö sæti bæði í velferðarráði og mannréttinda- og lýðræðisráði. Hins vegar fengu þeir ekkert sæti í borgarráði, ekkert í skipulags- og samgönguráði og ekkert í skóla- og frístundaráði. Í þessum þremur ráðum fékk Sjálfstæðisflokkurinn öll aðalsæti minnihlutans.

Að lokum verður að ætla að tilboð Sjálfstæðisflokksins um eina sæti minnihlutans í stjórn Félagsbústaða hafi vegið þungt fyrir Sósíalistaflokkinn. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×