Enski boltinn

West Ham rannsakar kynþáttabrot innan sinna raða

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
West Ham er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar
West Ham er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar Vísir/Getty
Enska úrvalsdeildarliðið West Ham hefur vikið yfirmanni leikmannamála Tony Henry frá störfum vegna ummæla hans um að félagið kaupi ekki fleiri leikmenn frá Afríku.

Daily Mail greindi frá því að Henry hefði sagt að afrískir leikmenn valdi usla þegar þeir fá ekki sæti í byrjunarliðinu.

Henry á að hafa sagt að það væri stefna félagsins að fá ekki til sín leikmenn frá Afríku en hélt því þó til haga að West Ham hefði ekkert á móti fólki af afrískum uppruna.

Nú hefur West Ham gefið frá sér yfirlýsingu þar sem segir að félagið hafi gripið til snöggra aðgerða vegna alvarleika ummælanna. Henry hafi verið vikið frá störfum á meðan rannsókn á málinu standi yfir.

„West Ham býður alla velkomna og tekur vel á móti fólki af öllum kynþáttum, aldri, kyni, trúarbrögðum eða kynhneigð,“ segir í yfirlýsingunni.

Leikmannafélagið á Englandi sagðist styðja snör viðbrögð West Ham í málinu.

Í dag eru sex leikmenn frá Afríku í leikmannahópi aðalliðs West Ham, þeir Cheikhou Kouyate, Pedro Obiang, Joao Mario, Angelo Ogbonna, Arthur Masuaku og Edimilson Fernandes. Félagið lét þá Diafra Sakho og Andre Ayew fara nú í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×