Innlent

Íslendingar langt á eftir öðrum þjóðum í netöryggismálum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir að Íslendingar séu langt á eftir öðrum þjóðum þegar kemur að netöryggismálum og nauðsynlegt sé að fara í stórátak til að efla varnir gegn netárárásum.

Netárásir eru daglegt brauð í hinum stafræna heimi og nánast öll fyrirtæki og allar stofnanir geta reiknað með því að verða á einhverjum tímapunkti fyrir slíkri árás.

Theodór Ragnar Gíslason, tæknistjóri hjá net- og upplýsingafyrirtækinu Syndis, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að ástandið í netöryggismálum hér á landi væri afar slæmt.

„Það er eiginlega hálf sorglegt að við skulum sjá sömu veikleikana sérstaklega í hugbúnaði ár eftir ár eftir ár og fer ekki batnandi. Ef ég á að vera svartsýnn þá myndi ég segja að ástandið væri bara mjög slæmt,“ segir Theodór.

Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir mjög erfitt að meta umfang netárása á íslensk fyrirtæki.

„Það má gera ráð fyrir því að við séum í nákvæmlega sömu stöðu og aðrar þjóðir þar sem eru stöðugar netárásir í gangi alla daga allt árið. Það má gera ráð fyrir því að svo sé líka hér á Íslandi,“ segir Hrafnkell.

Nýlega varð Veðurstofa Íslands fyrir netárás sem varð til þess að einstakar mælistöðvar úti á landi hættu að senda gögn.

„Skynjarakerfi Veðurstofunnar vaktar ýmiss konar náttúrustöður á Íslandi. Veður, eldgos og ég veit ekki hvað. Ef það hefði farið þannig að skynjarar hefðu ekki virkað þegar á þurfti að halda þá hefði þetta verið dauðans alvara,“ segir Hrafnkell.

Hrafnkell segir að efla þurfi netöryggi verulega hér á land. Hann bindur vonir við frumarp sem nú er í smíðum hjá samgönguráðuneytinu og segir nauðsynlegt að koma upp samhæfingu milli aðila til að samræma aðgerðir gegn árásum.

„Við erum langt á eftir nágrannalöndum okkar hvað þessi mál varðar. Víða erlendis eru settir verulegir fjármunir og tími og mannskapur í það að vinna þessa vinnu. Hér á landi er þetta ennþá mjög takmarkað,“ segir Hrafnkell. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×