Walcott hetja Everton í sigri | Gylfi lagði upp

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar með Theo Walcott í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar með Theo Walcott í kvöld. Vísir/Getty
Theo Walcott er byrjaður að láta til sín taka hjá Everton en hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 sigri á Leicester í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Þetta var fyrsti sigur Everton í öllum keppnum síðan 18. desember og því afar kærkominn.

Fyrra markið skoraði hann á 26. mínútu eftir góðan undirbúning Gylfa Þórs Sigurðssonar. Íslenski landsliðsmaðurinn stal boltanum af Ben Chilwell, leikmanni Leicester, og gaf á Walcott sem var dauðafrír. Eftirleikurinn var auðveldur.

Everton komst svo í 2-0 áður en fyrri hálfleikur var flautaður af. Þá fylgdi hann eftir skalla Michael Keane að marki gestanna.

Þetta voru fyrstu mörk Walcott fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni en hann kom til liðsins frá Arsenal fyrr í þessum mánuði.

Fátt benti til þess að Leicester myndi gera atlögu að forystu Everton enda ekki líklegt til afreka. En það breyttist um miðbik hálfleiksins er vítaspyrna var dæmd á Wayne Rooney. Jamie Vardy skoraði úr spyrnunni og minnkaði muninn í 2-1.

Leicester komst svo grátlega nálægt því að jafna metin er Kelechi Iheanacho skaut tvívegis í markrammann. En þar við sat - lokatölur 2-1 fyrir Everton.

Gylfi komst nálægt því að skora sjálfur í síðari hálfleik en skot hans var varið af Kasper Schmeichel. Hann var svo tekinn af velli á 82. mínútu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira