Enski boltinn

Özil búinn að skrifa undir nýjan samning við Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Özil.
Mesut Özil. Vísir/Getty
Þetta ætlar að verða góður dagur fyrir Arsenal. Fyrr í dag gekk enska félagið frá kaupum á sóknarmanninum Pierre-Emerick Aubameyang frá Dortmund og nú berast fréttir af því að Mesut Özil hafi skrifað undir nýjan samning.

BBC segir frá því að Özil hafi gengið frá og skrifað undir nýjan þriggja og hálfs árs samning sem gildir út 2020-21 tímabilið. Gamli samningurinn átti að renna út í sumar en Þjóðverjinn hefur ekki viljað framlengja hann fyrr en nú.





Özil verður við þetta launahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins en laun hans eru sögð verða 350 þúsund pund á viku fyrir skatt en það eru rétt tæplega 50 milljónir íslenskra króna.

Mesut Özil er 29 ára gamall og hefur verið hjá Arsenal síðan félagið keypti hann frá Real Madrid í september 2013.

Þýski landsliðsmaðurinn klárar því sitt áttunda tímabil hjá Arsenal áður en nýi samingurinn rennur út sumarið 2021.





Özil er með 4 mörk og 6 stoðsendingar í 20 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en hann er með 28 mörk og 51 stoðsendingu í 136 leikjum í ensku úrvalsdeildinni frá 2013. Özil gaf meðal annars 19 stoðsendingar 2015-16 tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×