Enski boltinn

Alfreð Finnbogason orðaður við Newcastle

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Finnbogason skorar og skorar í Þýskalandi.
Alfreð Finnbogason skorar og skorar í Þýskalandi. vísir/getty
Alfreð Finnbogason er einn af þeim framherjum sem Newcastle er að íhuga að kaupa í dag, á lokadegi félagaskipta, að því fram kemur í The Chronicle.

Newcastle hélt sig vera búið að landa danska framherjanum Nicolai Jörgensen frá Feyenoord en ekkert virðist ætla að rætast úr þeim félagaskiptum.

Rafael Benítez ætlar sér að kaupa framherja áður en glugganum verður lokað á miðnætti og samkvæmt frétt vefsins er Alfreð einn þeirra framherja sem hann er að skoða.

Óvíst er hvort Newcastle hreinlega gefist tími til að kaupa Alfreð þar sem Augsburg er væntanlega ekki með staðgengil kláran fyrir íslenska landsliðsmanninn.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Alfreð er orðaður við Newcastle en árið 2013 þegar að hann var að raða inn mörkum fyrir Heerenveen í Hollandi var hann undir smásjá eins aðalnjósnara félagsins.

Alfreð hefur verið sjóðheitur í þýsku deildinni á tímabilinu, en hann er búinn að skora ellefu mörk í 18 leikjum fyrir Augsburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×