Enski boltinn

Sonur Ferguson fékk sekt fyrir að leggja til að dómararnir yrðu skotnir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Darren Ferguson þarf að rífa upp veskið.
Darren Ferguson þarf að rífa upp veskið. vísir/getty
Darren Ferguson, knattspyrnustjóri Doncaster, hefur verið sektaður um 1.000 pund eða ríflega 142 þúsund krónur fyrir að leggja það til að skjóta dómarana í C-deildinni á Englandi..

Ferguson, sem er sonur hins goðsagnakennda Sir Alex Ferguson, var gjörsamlega trylltur eftir 1-1 jafntefli Doncaster og Plymouth fyrr í mánuðinum. Þar fannst honum sérstaklega tvær ákvarðanir falla með Plymouth en hann vildi fá vítaspyrnu í leiknum.

„Dómarinn sem dæmdi þann leik er að dæma aftur um helgina. Við eigum væntanlega eftir að fá aðra afsökunarbeiðni þegar að þeir sjá að þetta var klárt víti en samt verður dómarinn aftur á flautunni,“ sagði Ferguson í viðtali í vikunni eftir leikinn.

„Dómararnir eru í hlutastarfi. Gæðin eru engin og þeir eru ekki í neinu formi. Ég er búinn að fá gjörsamlega nóg af þessu.“

Aðspurður hvað enska knattspyrnusambandið ætti að gera í málunum svaraði Ferguson um hæl: „Það væri góð hugmynd að skjóta þá.“

Eðlilega hafði enska sambandið lítinn húmor fyrir þessum ummælum Fergusons og er búið að sekta hann um þúsund pund, að því fram kemur á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×