Innlent

Afléttu banni en ólögleg vinna hélt áfram daginn eftir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla var kölluð til vegna brotsins. Mynd er úr safni.
Lögregla var kölluð til vegna brotsins. Mynd er úr safni. Fréttablaðið/Andri Marinó
Kalla þurfti til lögreglu vegna ítrekaðra brota fyrirtækisins Múr og mál ehf. við vinnu á þaki húss að Eiðistorgi 7 á Seltjarnarnesi í vikunni, að því er fram kemur í frétt á vef Vinnueftirlitsins. Fyrirtækið hélt áfram vinnu án viðeigandi fallvarna daginn eftir að banni vegna sama brots hafði verið aflétt.

Vinnueftirlitið stöðvaði vinnu fyrirtækisins þann 29. ágúst síðastliðinn vegna ófullnægjandi fallvarna. Banninu var aflétt samdægurs þar sem búið var að framfylgja fyrirmælum Vinnueftirlitsins.

Við skoðun daginn eftir, eða þann 30. ágúst, kom í ljós að enn var verið að vinna á þaki hússins án fullnægjandi fallvarna. Lögregla var því kölluð til þar sem um ítrekað brot var að ræða og vinna stöðvuð.

Þá var öll vinna á þökum hússins bönnuð aftur þar til gengið væri frá fullnægjandi fallvörnum, þ.m.t. línunotkun við vinnu á þaki. Einnig var forsvarmönnum fyrirtækisins gert að funda með Vinnueftirlitinu um vinnuverndarstarf fyrirtækisins og öryggismál.

Frekari viðbrögð vegna þessara ítrekuðu brota eru í skoðun hjá Vinnueftirlitinu, að því er segir í frétt Vinnueftirlitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×