Innlent

Þetta mun gerast á Íslandi 2018

Birgir Olgeirsson skrifar
Það mun ýmislegt merkilegt eiga sér stað á Íslandi árið 2018.
Það mun ýmislegt merkilegt eiga sér stað á Íslandi árið 2018. Vísir
Árið 2018 er gengið í garð og mun ansi margt eiga sér stað á því herrans ári. Þar á meðal heimsmeistaramót í knattspyrnu, Evrópumót í handbolta, Vetrarólympíuleikar, tónlistarhátíðir, listahátíðir, bæjarhátíðir og réttindahátíðir.

Sveitastjórnakosningar fara fram á árinu auk þess sem Ísland fagnar 100 ára afmæli fullveldis. Þá verða ýmis ný mannvirki tekin í notkun á árinu.

Hér fyrir neðan má sjá yfirferð Vísis yfir árið:

Janúar

Þriggja þrepa dómskerfi

1. janúar breyttist dómskerfi landsins þegar Landsréttur tók til starfa. Úrlausnum héraðsdómstóla, sem eru átta, er unnt að skjóta til Landsréttar. Æðsti dómstóll ríkisins er Hæstiréttur. Þangað er unnt að skjóta úrlausnum Landsréttar að fengnu leyfi Hæstaréttar, en í flestum málum verða úrlausnir Landsréttar endanlegar. 

Hækkun fæðingarorlofs

Fæðingarorlof var hækkað 1. janúar en það á við foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur eftir áramót.

EM í handbolta

Evrópumót karla í handbolta fer fram í Króatíu dagana 12. – 28. janúar næstkomandi. Ísland leikur í A-riðli mótsins með Króatíu, Svíþjóð og Serbíu en leikið verður í Split.

Upphaf þorra

Þorri er fjórði mánuður vetrar og hefst í 13. viku vetrar að forníslensku tímatali. Samkvæmt því taldist veturinn hálfnaður þegar þorrinn gekk í garð.

Þorrinn í ár hefst 19. janúar næstkomandi og er bóndadagur ávallt fyrsti dagur hans. Margir Íslendingar fagna þorra og stór þorrablót haldin víða um land, þar á meðal þorrablót Stjörnunnar í Garðabæjar sem er 19. janúar í ár.

Kísilver PCC á Bakka gangsett

Stefnt er að því að gangsetja kísilver PCC BakkaSilicon ehf. á Bakka við Húsavík í lok janúar. Áður hafði verið gert ráð fyrir því að það yrði gangsett 13. desember síðastliðinn.

Febrúar

Vetrarólympíuleikarnir

Um er að ræða 23. Vetrarólympíuleikana sem fara fram í Pyeongchang í Suður Kóreu frá 9. til 25. febrúar í ár. Íslendingar munu eiga einhverja fulltrúa þar en endanlegur listi mun ekki liggja fyrir fyrr en eftir 22. janúar.

Söngvakeppni Sjónvarpsins

Fyrirkomulag keppninnar verður með svipuðu sniði og fyrri ár. Forkeppnin fer fram 10. og 17. febrúar í Háskólabíó þar sem þrjú lög komast áfram í úrslitin sem fara fram 3. mars í Laugardalshöll. Sigurvegarinn verður fulltrúi Íslands í Eurovision í Portúgal í maí.

Bolludagur

12. febrúar í ár munu Íslendingar borða rjómabollurnar en bolludagur verður mánudaginn í föstuinngangi, sjö vikum fyrir páska.

Sprengidagur

13. febrúar er komið að saltkjötinu og baununum en um er að ræða þriðjudag í föstuinngangi fyrir lönguföstu.

Valentínusardagur

14. febrúar fagna ástfangnir messudegi heilags Valentínusar með því að gefa gjafir á borð við blóm og konfekt.

Öskudagur

Fyrsti dagur lönguföstu fyrir páska verður 14. febrúar.

Góa 

Hefst sunnudaginn 25. febrúar í ár. Um er að ræða fimmta og næstsíðasta mánuð vetrar að forníslensku tímatali. Dóa er dóttir Þorra en konudagurinn ber upp á fyrsta degi Góu.

Icelandair fær nýjar þotur

Flugfélagið fær þrjár nýjar Boeing 737 MAX þotur til landsins í febrúar en þær verða þó ekki teknar inn í leiðakerfið fyrr en seinna í vor. Á næsta ári fær flugfélagið sex slíkar vélar til viðbótar.

Icelandair fær nýjar Boeing 737 MAX þotur í febrúar en þær verða ekki teknar í notkun fyrr en í vor.Boeing

Mars

Sónar

Tónlistarhátíðin Sónar Reykjavík fer fram dagana 16. – 17. mars í Hörpu.

Fyrsti dagur dymbilviku

Pálmasunnudagur er hátíðsdagur kristinna sem fellur á sunnudaginn fyrir páska og er fyrsti dagur dymbilviku. Pálmasunnudagur, sem verður 25. mars í ár, er haldinn til minningar um innreið Jesú í Jerúsalem þegar fólkið breiddi klæði sín á veginn og veifaði pálmagreinum til að fagna komu hans.

Skírdagur

29. mars verður þess minnst þegar Jesú Kristur þvoði fætur lærisveinanna fyrir hina heilögu kvöldmáltíð sem er kölluð síðasta kvöldmáltíðin.

Föstudagurinn langi

Föstudagurinn langi verður 30. mars en þá er píslargöngu Krists minnst, krossfestingar hans og dauða.

Aldrei fór ég suður

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður fer fram á Ísafirði í páskavikunni, hefst á skírdegi og lýkur á laugardeginum 31. mars fyrir páskadag.

Aldrei fór ég suður verður haldin á Ísafirði um páska.Ágúst G. Atlason

Apríl

Páskadagur 

Páskadag ber upp 1. apríl í ár en páskar eru haldnir fyrsta sunnudag eftir að tungl verður full næst eftir vorjafndægur.

Jessie J í Hörpu

Breska söngkonan heldur tónleika í Hörpu á síðasta degi vetrar, 18. apríl næstkomandi.

Sumardagurinn fyrsti

Fyrsti dagur Hörpu, fyrsta sumarmánaðarins, verður 19. apríl.

Fossavatnsgangan 

Um er að ræða elsta skíðamót sem er enn við lýði á Íslandi, en gangan fór fyrst fram árið 1935. Gangan fer jafnan fram á Ísafirði um mánaðamótin apríl/maí og markar lok skíðavertíðarinnar hér á landi. Gangan í ár er 28. apríl en von er á hátt í þúsund manns sem mun reyna sig við þessa krefjandi skíðagöngu.

Jessie J á tónleikum í Laugardalshöll árið 2015.Vísir/Daníel

Maí

John Cleese í Hörpu

Grínarinn verður með þrjár sýningar í Eldborgarsal Hörpu dagana 17., - 18. – og 19. maí.

Foreigner í Laugardalshöll

Tónleikarnir fara fram föstudagskvöldið 18. maí.

Eurovision

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, fer fram í Lissabon í Portúgal dagan 8. – 12. maí.

Uppstigningardagur

Um er að ræða einn af 15 lögbundnu frídögum almanaksársins en uppstigningardagur er fimmtudagurinn fjörutíu dögum eftir páska. Uppstigningardagur er 10. maí í ár en þá er himnafarar Jesú Krists minnsts.

Hvítasunna 

Ber upp 20. maí í ár en hvítasunnan markar lok páskatímans.

Sveitarstjórnarkosningar

Gengið verður að kjörkössunum 26. maí næstkomandi þar sem barist verður um forystu í sveitarstjórnum landsins.

Sveitarstjórnarkosningar verða í lok maí.Vísir

Júní

Sjómannadagur er 3. júní

HM í Rússlandi

Heimsmeistaramótið karla í knattspyrnu hefst 14. júní með leik Rússa gegn Saudi Arabíu í Moskvu þann 14. júní næstkomandi. Ísland leikur í D-riðli og er fyrsti leikurinn gegn Argentínu þann 16. júní næstkomandi.

Listahátíð í Reykjavík

Listahátíð í Reykjavík fagnar 48 ára afmæli sínu í ár en hún verður haldin 1. – 17. júní. Fjöldi glæsilegra listamanna kemur fram á þessari hátíð, þar má meðal annars nefna Bill Murray sem verður með tvær skemmtanir í Hörpu.

Sumarsólstöður

Sumarsólstöður verða 21. júní í ár en á því augnabliki snýr norðurpóll jarðar næst sólu.

Secret Solstice

Tónlistarhátíðin fer fram í Laugardal í Reykjavík dagana 21. – 28. júní.

Secret Solstice verður á sumarsólstöðum í ár.Vísir/Daníel

Júlí

Ný brú yfir Bjarnarfjarðará

Verkið hófst síðastliðið haust og verklok áætluð í júlí.

Druslugangan

Mótmælaganga þar sem markmiðið er að uppræta fordóma varðandi klæðaburð og ástand þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi og vekja athygli á því að það eru gerendur sem bera ábyrgð. Fyrsta druslugangan var farin í Reykjavík 23. júlí árið 2011 og má ætla að hún verði farin í júlí í ár.

Hvalfjarðargöngin

Spölur ehf., félagið sem rekur Hvalfjarðargöng, ráðgerir að hætta gjaldtöku þar síðsumars og afhenda ríkinu göngin. Hvort ríkið muni síðan halda áfram gjaldtöku liggur ekki fyrir.

Breikkun brúa

Byggin nýrra brúa á Hólá og Stigá á Hringveginum í Öræfum. Koma í stað einbreiðra brúa. Unnið af vinnuflokki Vegagerðarinnar. Verklok áætluð í sumar.

Spölur ætlar að hætta gjaldtöku og afhenda íslenska ríkinu Hvalfjarðargöng síðsumars. Það er stefna fyrirtækisins en stefna íslenska ríkisins liggur ekki fyrir varðandi áframhald á gjaldtöku.Vísir/Pjetur

Ágúst

Verslunarmannahelgin

Frídagur verslunarmanna ber upp 5. ágúst í ár. Ljóst er að fjölmargir munu leggja land undir fót á hátíðir víða um land, þar á meðal þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Fiskidagurinn mikli

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er haldin hátíðleg í Dalvíkurbyggð helgina eftir verslunarmannahelgi.

Gay Pride

Hinsegin dagar fara fram 7. – 12. ágúst þar sem minnt er á réttindabaráttu hinsegin fólks.

Reykjavíkurmaraþon

Fer fram 18. ágúst í ár og ekki úr vegi að byrja að æfa. Hægt er að velja á milli fimm vegalengdir sem henta fyrir ýmsa aldurshópa og fjölbreytt getustig.

Menningarnótt

Fer fram 18. ágúst en um er að ræða borgarhátíð sem er haldin árleg í Reykjavík fyrsta laugardag eftir afmæli Reykjavíkurborgar þann 18. ágúst. Í ár er sá laugardagur á afmælisdeginum sjálfum.

Verktakar Ósafls glöddust þegar síðasta haftið var sprengt í vor.
Reiknað er með að opna Vaðlaheiðargöng í haust. vísir/jói k.

September

Vaðlaheiðargöng

Vonir standa til að opna Vaðlaheiðargöng í haust.

Dettifossvegur vestri – Súlnalækur

Nýbygging. Verkið felst í lagningu burðarlags og klæðingar á 7,72 kílómetra kafla, nýbyggingu vegar með klæðingu á 2,7 kílómetra kafla og nýbyggingu vegar upp að burðarlagi á 3,4 kílómetra kafla. Heildarlengd útboðskaflans er 13,82 kílómetrar. Verklok áætluð í september.

Hringvegur um Berufjarðarbotn

Gerð 4,9 kílómetra langs vegar um Berufjarðarbotn ásamt smíði 50 metra langrar brúar og gerð 1,7 kílómetra langra heimreiða að bæjunum Berufirði og Hvannabrekku. Annars vegar er um að ræða nýbyggingu á 2,9 kílómetra kafla Hringvegar norðan Berufjarðar og er um 1 kílómetri af þeim hluta yfir sjávarvog. Hins vegar er endurgerð Hringvegar á 2,0 kílómetra löngum kafla sunnan Berufjarðar. Verklok áætluð í september.

Ný brú yfir Eldvatn

Nýbygging Skaftártunguvegar um Eldvatn í Skaftárhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu ásamt byggingu nýrrar brúar yfir Eldvatn. Nýr vegkafli er 920 metrar að lengd frá Hringvegi, um Eldvatn og tengis núverandi Skaftártunguvegi við Eystri-Ása. Ný brú á Eldvatn er 80 metra löng stálbogabrú. Verkið var boðið út síðastliðið haust en öllum tilboðum hafnað. Það verður boðið aftur í í vor og verklok áætluð í haust.

Framkvæmdum á Hafnartorginu á að ljúka um mitt næsta ár.
Reiknað er með að Hafnartorg verði opnað við hátíðlega athöfn í október. vísir/ernir

Október

Skarðsvegur í Skarðsdal

Nýbygging á kafla sem byrjar skammt neðan við núverandi skíðaskála og nær að fyrirhuguðum skíðaskála sunnan Leyningsár. Lengd útboðskaflans er um 1,22 km auk 5.300 m2 bílastæðis við efri enda kaflans. Verklok áætluð í október.

Hafnartorg

Vonir standa til að Hafnartorgið í miðborg Reykjavíkur verði opnað við hátíðlega athöfn í október næstkomandi. Mun byggingin innihalda íbúðir, verslanir, kaffihús, veitingastaði og nútímalegar skrifstofur.

Fyrsti dagur vetrar

Fyrsti dagur vetrar er 27. október í ár en um er að ræða laugardagurinn að lokinn 26. viku sumars og fyrsti dagur fyrsta vetrarmánaðarins, Gormánaðar.

Nóvember

Iceland Airwaves

Tónlistarhátíðin hefst 7. nóvember í ár.

Átökin eru sögð hafa átt sér stað fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli um fimm leytið í morgun.
1. desember fagna Íslendingar 100 ára fullveldisafmæli. Vísir/GVA

Desember

Vestfjarðavegur um Gufudalssveit

Unnið er að undirbúningi verksins. Beðið er eftir aðalskipulagsbreytingu sem unnin er á vegum sveitarfélagsins. Vonast er til að framkvæmdir geti hafist fyrir lok árs.

100 ára fullveldi

Laugardagurinn 1. desember eru 100 frá því Íslendingar fengu fullveldi frá Dönum.

Jólin

Jólin í ár verða launþegum í vil, ef svo má að orði komast, því aðfangadag ber upp á mánudegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×